fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engin birgðasöfnun á hvítfiski í Noregi

9. desember 2013 kl. 12:40

Fiskvinnsla hjá Norway Seafoods

Vonast er til þess að verð á þorski og ufsa hækki á næsta ári.

Það á sér ekki stað nein birgðasöfnun á hvítfiski í Noregi þrátt fyrir auknar veiðar, að því er fram kom í erindi Kyrre Dale greinanda hjá Nordea Bank á aðalfundi samtaka útvegsmanna í Álasundi í Noregi fyrir helgina. 

Dale lýsti von um að verðhækkun yrði á þorski og ufsa á næsta ári og áfram yrði gott verð fyrir ýsu. 

Um uppsjávarfiskinn sagði hann að þungt hefði verið undir fæti í síldarsölu í ár sem leitt hefði til verðlækkunar. Verulegir birgðir væru af síld í Noregi. Hins vegar hefði enginn makríll verið í birgðum þar í landi fyrir makrílvertíðina og góð eftirspurn væri eftir makríl í Japan.

Um samkeppnisstöðuna sagði Dale að ESB væri í auknum mæli sjálfu sér nægt hvað síldarflök varðaði. Síld og makríll frá Íslandi og Fæeyjum væru seld á lágu verði til Austur-Evrópu og Afríku. 

Hann sagði ennfremur að deilur um kvótaskiptingu sameiginlegra fiskistofna í NA-Atlantshafinu trufluðu markaðinn. Óvissa ríkti um framboðið og Noregur ákvæði ekki verðið lengur.