miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engir möguleikar til að hagræða

Guðsteinn Bjarnason
24. febrúar 2020 kl. 07:00

Ásbjörn Óttarsson. útgerðarmaður og fyrrverandi Alþingismaður Aðsend mynd

Ýsan er enn að hrella sjómenn. Heimild til netaveiða geta leyst vandann fyrir marga, segir Ásbjörn Óttarsson útgerðarmaður. Kvaðir í krókaaflamarkinu séu ósanngjarnar.

Ýsan hefur undanfarið yfirgnæft þorskinn í veiðum Ásbjörns Óttarssonar á Rifi, rétt eins og margra annarra, útgerðarmönnum til lítillar ánægju.

Ásbjörn gerir bátinn Tryggva Eðvarðs SH-2 út á línu og hefur átt þennan bát frá árinu 2010. Hann man ekki annað eins ástand.

„Við höfum aldrei fengið svona mikla ýsu frá því ég byrjaði að gera út. Maður hefur verið að taka allt upp í sex eða sjö tonn af ýsu í róðri, og svo eitt tonn af þorski með.”

Aldrei þessu vant er ýsukvótinn þess vegna orðinn af skornum skammti, sem torveldar mönnum þorskveiðina.

„Við höfum held ég aldrei náð ýsukvótanum áður, en núna vorum við búnir með hann um áramótin. Þá verða menn að leigja sér einhvers staðar, og það er auðvitað erfitt þegar allir eru að veiða ýsu. Þá náttúrlega fer þetta allt í skrúfuna eins og sagt er.”

Hann segir þetta ástand í hafinu engan veginn ríma við ráðgjöfina frá Hafró.

„Miðin endurspegla ekki allt sem þeir segja. Þau eru bara svona þessi vísindi.“

Þar á ofan hefur tíðarfarið verið erfitt undanfarið.

„Þetta hafa verið svo langir harðir kaflar, alveg frá því í desember. Nánast verið bræla allan tímann. Það reddaðist samt aðeins í janúar þegar við komumst í nokkrar ferðir. Samt er ágætis veiði núna þegar viðrar.“

Netaveiðar myndu létta á

Ásbjörn telur að úr þessu mætti bæta með því að gera útgerðarmönnum kleift að hagræða til að bregðast við ástandi sem þessu.

„Ég er alveg sannfærður um það að ef menn myndu leyfa krókaaflamarksbátum að hagræða þá myndi þeim ekki fækka. Þeim væri ekki búið að fækka eins mikið og þeir hafa gert og þeim myndi ekki fækka eins mikið í framtíðinni.”

Þar myndi ekki síst muna um það ef netaveiðar yrðu leyfðar.

„Ef við fengjum að veiða í net þá gætum við verið að veiða heima hjá okkur og um leið forðast ýsuna. Þá mundi líka losna um ýsuna í krókaaflamarkskerfinu og menn gætu þá látið þá fá kvóta sem vilja vera á línu. Það myndi létta á. Menn gætu til dæmis verið á línu fyrir áramótin og neti eftir áramót.”

Hann segir þær skorður sem settar eru í krókaaflamarki afar ósanngjarnar.

„Við borgum sömu gjöld og aðrir sem er náttúrlega mjög óréttlátt. Úr því verið er að festa okkur á þessari línu, sem alltaf verður óhagkvæmara og óhagkvæmara að gera út á, þá finnst manni að maður ætti ekki að þurfa að borga sömu veiðileyfagjöld og hinir.”

Byrjaði ungur á loðnu

Ásbjörn sat á Alþingi á árunum 2009 til 2013 en hefur annars verið í útgerð frá því hann var 21 árs gamall árið 1984.

„Ég byrjaði ungur á sjó og var fyrst alltaf á loðnu, ég var stýrimaður á loðnubát,” segir hann og tekur fram að hann hafi byrjað eftir að kvótakerfið kom og keypt sinn kvóta sjálfur.

Hann rekur útgerðarfyrirtækið Nesver á Rifi og hefur jafnan gert út þaðan, en ákvað þó að vera með bátinn á Hólmavík tvö haust, 2016 og 2017.

„Þá vorum við að keyra bala á vörubíl á hverjum einasta degi, til Hólmavíkur fram og til baka þannig að það varð nú kolefnissporið eftir mann þar. Þetta er ekki hagkvæmt eða skynsamlegt. Þá væri betra að leyfa okkur að hagræða.”