föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn er lægð í færeyskum fiskveiðum

3. febrúar 2016 kl. 08:57

Færeyskt línuskip. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Um 70 þúsund tonn veiddust af bolfiski og flatfiski árið 2015 og aflaverðmætið var rúmir 15 milljarðar ISK

Afli og aflaverðmæti færeyskra skipa, annarra en uppsjávarskipa, hefur dregist mikið saman á undanförnum árum. Um er að ræða skip sem veiða á heimamiðum, við Ísland eða á Flæmingjagrunni. Þetta kemur fram í samantekt færeysku hagstofunnar fyrir árið 2015 og samanburð við fyrri ár.

Fiskiríið hjá færeyska flotanum var gott á árunum 2003 til 2007. Meðalaflinn á ári var um 130 þúsund tonn af bolfiski, flatfiski og skelfiski. Eftir 2007 hefur heildaraflinn verið undir 100 þúsund tonnum og vel það. Á síðasta ári var aflinn um 70 þúsund tonn sem er svipað og var árið 2014.

Aflaverðmæti hefur lækkað samfara minni afla. Á árunum 2000 til 2007 var aflaverðmætið um 1,2 milljarðar (23 milljarðar ISK) á ári. Undanfarin 5 ár hefur aflavermætið verið að meðaltali 750 milljónir. Árið 2015 hækkaði aflaverðmætið og var um 800 milljónir (15,2 milljarðar ISK) sem er um fimmtungi hærra en árið 2014 en þá var það 677 milljónir.