mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn er loðnu leitað - vonir nú bundnar við vestangöngu

1. mars 2019 kl. 09:00

Ef einhver slatti af loðnu finnst verður hann veiddur til hrognatöku. Mynd/Hari

Tíminn er að renna út miðað við hefðbundna loðnuvertíð en menn vonast til að finna smávegis af loðnu til hrognatöku. Útgerðin annast leitina þar sem Marsrall Hafró er hafið.

Enn hefst loðnuleit um helgina þegar skipin Ásgrímur Halldórsson og Polar Amaroq láta úr höfn. Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir grafalvarlega stöðu uppi ef engin loðna finnst.

Rætt er við Jens Garðar í Austurfrétt.

„Þetta er að verða síðasti séns að það mælist eitthvað. Tíminn er að renna út miðað við hefðbundna loðnu en menn vonast til að finna eitthvað smávegis af loðnu til hrognatöku,“ segir Jens Garðar.

Í frétt Austurfréttar er það rakið að þrátt fyrir mikla leit hefur ekki enn fundist loðna í slíku magni að Hafrannsóknastofnun treysti sér til að gefa út kvóta til veiða. Áfram verður haldið um helgina þegar Polar Amaroq, skip dótturfélags Síldarvinnslunnar og Ásgrímur Halldórsson frá Höfn láta úr höfn.

Til stendur að Ásgrímur fari suður fyrir land og kanni hvort loðna sé að koma inn á svæði þar en Polar Amaroq, sem beðið hefur í Reykjavíkurhöfn í vikunni, heldur til vesturs. 

„Það hefur komið vesturganga síðustu ár og menn halda í vonina um að hún láti sjá sig,“ útskýrir Jens í viðtalinu við Austurfrétt.

Rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar eru bundin í öðrum verkefnum auk þess sem fjárheimildir stofnunarinnar til loðnuleitar munu vera uppurnar en fiskifræðingar stofnunarinnar verða um borð í skipunum tveimur. Leitin verður því kostuð af útgerðunum sem gera út á loðnu en þær hafa þegar kostað til vel yfir 100 milljónum króna frá byrjun árs við loðnuleit.

En tekjutapið sem útgerðin, samfélögin og ríkissjóður verða fyrir ef ekki verður loðnuvertíð í fyrsta sinn frá árinu 1963 er mun meira. „Staðan er grafalvarleg. Fyrir samfélögin á Vopnafirði, Fjarðabyggð, Höfn og Vestmannaeyjum yrði það gríðarlega mikið högg ef ekki fyndist loðna. Þetta er vertíð sem haft hefur í for með sér uppgrip fyrir fólkið, samfélögin og fyrirtækin,“ segir Jens