þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn gengið út frá því að þetta sé flensa

Gudjon Gudmundsson
20. mars 2020 kl. 14:01

Hrafn Sveinbjarnarson við bryggju í Vestmannaeyjum. Mynd/Óskar Friðriksson

Aukning í ferskum fisk í smásölu í Bretlandi.

„Við höfum svo sem ekki frekari fréttir núna. Málið er þannig vaxið að það hefur verið flensa um borð í skipinu undanfarna daga. Við höfum verið í sambandi við Landlæknisembættið og fullrúa þess. Fram að gærdeginum töldu menn allar líkur á því að þetta væri umgangspest eins og er víða að ganga í samfélaginu. En svo voru einhverjar lýsingar á sjúkdómseinkennum sem leiddu til þess að mönnum þótti rétt að fá skipið inn og athuga stöðuna. Þess vegna kom Hrafn Sveinbjarnarson inn til Vestmannaeyja,“ segir Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri hjá Þorbirni hf.

Hann segir að beðið sé niðurstaðna úr sýnatökum og þær séu væntanlegar seinnipart dags eða í kvöld. Enn sé gengið út frá því að einungis sé um hefðbundna inflúensu að ræða en allur sé varinn góður.  

Þeir sem voru verstir af flensunni fóru í land en aðrir skipverjar halda kyrru fyrir í skipinu.

„Það gerist á hverjum einasta vetri og jafnvel í tveimur til þremur túrum að menn leggist í flensu. Þetta eru litlir vinnustaðir og mikið návígi. Þess verður þetta stundum eins og faraldur. Við höfum látið bólusetja fyrir inflúensu en það eru ekki allir sem vilja láta bólusetja sig. Sumum finnast þeir verða jafnvel veikari hafi þeir verið bólusettir.“

Fregnir hafa verið af því að sala á ferskum fiski erlendis hafi stöðvast. Aðspurður um hvort til greina komi að leggja flotanum meðan lítið fáist fyrir afurðirnar segir Eiríkur Óli svo ekki vera.

 „Við höfum ekki leitt hugann að því. Við vonum að það verði hægt að sigla í gegnum þetta í rólegheitunum. En við heyrum að sérstaklega þeir sem eru meira í ferskum fiski  séu að draga saman seglin. Þetta ástand kemur meira og fyrr við þá sem eru í fersku. Í sjófrystingunni og söltuninni gerast hlutirnir hægar. Ljósa hliðin á þessu öllu er sú að fólk verður að halda áfram að borða og ekki síst hollan og góðan mat eins og fisk.“

Fyrirtækin sem nánast eingöngu eru í fersku eru all nokkur. Í Grindavík má nefna fyrirtæki eins og Einhamar og Stakkavík sem eru eingöngu í fersku, fyrir norðan er það Samherji á Dalvík og ÚA á Akureyri, Brim er mjög stór í fersku en frysta þó einnig umtalsvert.

„Það er þó ekki þannig að allt sé strandað. Við höfum heyrt að sums staðar sé aukning í sölu á ferskum fisk, til dæmis inn í smásöluverslunina í Bretlandi. Salan virðist vera að aukast inn í stórmarkaðina því nú eru margir sem hafa borðað á veitingastöðum eða mötuneytum farnir að elda mat heima hjá sér,“ segir Eiríkur Óli.