sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn lagt til bann við selveiðum

26. júní 2018 kl. 07:00

Fylgst hefur verið nokkuð reglulega með breytingum á stofnstærð landsels síðan 1980. Mynd/Þorgeir Baldursson

Hafrannsóknastofnun ítrekar það álit sitt að banna beinar veiðar á landsel í nýjustu veiðiráðgjöf sinni

Hafrannsóknastofnun leggur til í nýrri veiðiráðgjöf sinni að stjórnvöld leiti leiða til að koma í veg fyrir beinar veiðar á landsel og lágmarka meðafla landsela við fiskveiðar. Stofnunin leggur einnig til að veiðistjórnunarkerfi verði innleitt fyrir selveiðar við Ísland, og að skráningar á öllum selveiðum verði lögbundnar.

Í tækniskýrslu stofnunarinnar segir að fjöldi landsela hafi verið metinn um 33.000 dýr árið 1980, en fjöldinn minnkaði hratt fram til 1989 og var þá um 15.000 dýr. Síðasta talning landsels fór fram 2016 og var stofninn metinn um 7.652 dýr. Samkvæmt matinu er stofninn nú 77% minni en árið 1980 og 36% undir stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda sem er 12.000 dýr.

Mögulegar skýringar

Dregið hefur mjög úr hefðbundinni nýtingu selabænda á stofni landsels. Því telur Hafrannsóknastofnun það vera nærtækustu skýringarnar á fækkun hans vera óbeinar veiðar (meðafli við fiskveiðar), veiðar í ósum laxveiðiáa, óskráðar veiðar, og óhagstæðar umhverfisbreytingar.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið undir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar til stjórnvalda. Þetta mat NÍ kom síðast fram í nýjasta fjölriti Náttúrufræðistofnunar – Selalátur við strendur Íslands.

„Ýmsar mögulegar skýringar eru á fækkun landsels, fyrir utan veiðar, til dæmis fæðuskortur, umhverfisbreytingar og sjúkdómar. Netaveiðar á hrognkelsi í Breiðafirði og stofnbrestur sandsílis suður og vestur af landinu gætu skýrt staðbundna fækkun landsels á þessum svæðum. Einnig hefur verið sýnt fram á að tíðar mannaferðir í selalátur hafi neikvæð áhrif á fjölda og dreifingu sela í látrum,“ segir í riti Náttúrufræðistofnunar.

Við hættumörk

Í riti Náttúrufræðistofnunar er ekki aðeins litið til landsels heldur útsels einnig. Þar segir að þótt talningar hafi ekki farið fram árlega á útsel bendir eigi að síður allt til þess  að útsel hafi einnig fækkað mikið. Áætluð stofnstærð var mest árið 1990, um 10.000 dýr, en árið 2005 hafði þeim fækkað um rúman helming og stofninn dregist saman í um 6.000 dýr. Ýmsir þættir hafa áhrif á stofnstærð útsels, t.d. veiðar, sjúkdómar og umhverfisbreytingar á borð við hlýnun sjávar, sem hefur áhrif á fæðuframboð.

„Árið 2005 settu stjórnvöld fram stjórnunarmarkmið fyrir útselsstofninn við Ísland og var þá miðað við um 4.100 dýr sem var áætluð stofnstærð árið 2004. Árið 2012 var útselsstofninn metinn nálægt þessum viðmiðunarmörkum og ástæða til að vara við frekari samdrætti í stofninum;“ segir í ritinu.

Nefnd til höfuðs selnum

Fyrr á öldum voru landselur og útselur aðallega nýttir til neyslu hérlendis en síðar var einkum sóst eftir skinnum kópa.

„Undir lok áttunda áratugar síðustu aldar varð verðfall á selskinnum á mörkuðum og eftir það dróst veiði verulega saman. Veiðin jókst aftur 1982 fyrir tilstuðlan hringormanefndar sem greiddi fyrir veidda seli fram til ársins 1990. Markmið nefndarinnar var að fækka sel og draga úr efnahagslegu tjóni sem þeir voru taldir valda, sem millihýslar við hringormasmit í þorskfiskum og vegna meintrar ágengni þeirra í laxastofna. Eftir 1986 dró úr veiði og skráður heildarafli árin 2002–2012 var tæp þúsund dýr. Skráning selveiði er ekki bundin í lög og veiðitölur eru að ýmsu leyti mjög ófullkomnar,“ segir í riti Náttúrufræðistofnunar.