miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn óvissa um framtíð Ísfisks

Guðsteinn Bjarnason
24. október 2019 kl. 13:42

Albert segir almennt fárviðri ríkja í íslenskri fiskvinnslu. MYND/HAG

Albert Svavarsson segir lánaskilyrði Byggðastofnunar snúa að fleirum en Ísfiski

„Ég held að við þurfum alla vega þessa viku og næstu í að skýra línur,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks á Akranesi.

„Við höfum bara fengið þetta lánsloforð og það er bundið skilyrðum sem við erum að vinna í að uppfylla. En þessi skilyrði snúa að fleirum en okkur sjálfum þannig að það er ekki bara undir okkur komið að þetta gangi.“

Ísfiskur þurfti sem kunnugt er að segja upp 42 starfsmönnum fyrir í lok september. Óvissa ríkti um framtíð fyrirtækisins en Albert hefur sagst vera vongóður um að greiða megi úr vandanum.

Ísfiskur er engan veginn eina fiskvinnslan sem glímir við erfiðleika í rekstri þessar vikurnar. Töluverð umræða hefur verið undanfarið um útflutning á óunnum fiski, sem bitnað hefur hart á íslenskum fyrirtækjum.

„Almennt er fárviðri í íslenskri fiskvinnslu,“ segir Albert, en bætir því við að sú staða sé svo sem ekkert nýmæli.

„Þetta hefur gerst áður að það sé tekið svona mikið út í gámum og það hefur oftast bara tengst því að það sé verið að veiða minna af fiski annars staðar. Svo tengist það líka því að hérna heima er kostnaðurinn stundum alltof mikill vinnsluna, sem tengist nú bara því hvað krónan er sterk.“

Hundruð starfa tapast
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur undanfarið átt nokkra fundi með hagsmunaaðilum til að ræða samkeppnisstöðu innlendrar fiskvinnslu gagnvart gámafiskinum. Síðastliðin þrjú ár hefur sá útflutningur aukist mjög. Talið er að hann muni fara vel yfir 50 þúsund tonn á þessu ári.

Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, hefur sagt að greinin geti orðið af 2-4 milljörðum vegna þessa útflutnings og 500 til 1000 störf tapist.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður nefndarinnar, sagði Fiskifréttum í síðustu viku að bregðast þurfi við og fleiri en eitt ráðuneyti þurfi að koma að því máli. Nefndin hefur unnið að undirbúningi þess.

„Þetta eru ekki bara störf heldur er þetta gríðarlegt byggðamál,“ sagði Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, á einum þessara funda atvinnuveganefndar. „Það besta sem Alþingi getur gert er að skapa þessum fyrirtækjum rekstrarskilyrði til að geta rekið sig víða um land. Það þarf ekkert meira.“

„Það er bara þannig að allar aðstæður hafa verið óhagstæðar,“ segir Albert, en eina verkefnið hjá Ísfiski núna er að tryggja tilveru fyrirtækisins og störfin sem í húfi eru. Bæjarstjórnin á Akranesi hefur tekið þátt í þeirri vinnu.

Ísfiskur keypti bolfiskvinnslu HB Granda á Akranesi síðla sumars 2017 og hóf starfsemi þar snemma vors 2018. Áður hafði Ísfiskur starfrækt fiskvinnslu á Kársnesi í Kópavogi allt frá árinu 1980.