þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn sannast svindl með sjávarfang

26. mars 2019 kl. 12:40

Neytandinn á mjög erfitt með að sjá hvort verið er að svindla á honum. Mynd/EPA

Ný rannsókn í Bandaríkjunum á tegundasvindli.

Ný rannsókn á vegum umhverfissamtakanna Oceana sýnir – enn og aftur – að tegundasvindl með sjávarfang í Bandaríkjunum er útbreitt vandamál. Niðurstaðan var að einn af hverjum fimm fiskum sem prófaðir voru reyndust vera eitthvað allt annað en gefið var upp.

Rannsóknin var umfangsmikil; 400 sýni voru tekin á 250 stöðum í 24 ríkjum innan Bandaríkjanna milli mánaðanna mars og ágúst árið 2018. Til skoðunar voru tegundir fiska sem falla ekki undir eftirlitskerfi stjórnvalda (SIMP) og voru verðmætum og sjaldgæfari tegundum skipt út fyrir algengan og ódýrari fisk – en það er nokkuð sem svindl af þessu tagi gengur oftast út á.

Uppræta þarf svindlið

Einn rannsakenda – Kimberly Warner hjá Oceana – segir frá því að síðan rannsókn samtakanna hófst hafa verið tekin um tvö þúsund sýni í 30 ríkjum Bandaríkjanna. Hún segir að það veki sífellt furðu hversu útbreitt svindlið er, sem sé bein ógn við fiskistofna heimshafanna og þá neytendur sem séu fórnarlömb glæpamannanna. Grípa verði til afdráttarlausra aðgerða til að uppræta svindlið.

Fyrir stuttu sögðu Fiskfréttir frá því rannsóknateymi á vegum Háskólans í Exeter telur sig hafa vísbendingar um að í Englandi viðgangist tegundasvindl sem þetta í miklum mæli. Stærri rannsóknir benda til að um alþjóðlegt vandamál sé staðreynd þar sem hagnaðarvonin er gífurleg.