sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ensím unnin úr þorskinnyflum öflug sjúkdómavörn

7. maí 2008 kl. 13:00

Pensím virkar á inflúensu- og fuglaflensuveirur

Greinilegt er að ensím sem unnin eru úr þorskinnyflum eru til margra hluta nytsamleg. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þau geta drepið bæði innflúensu- og fuglaflensuveirur. Þetta eru sömu ensím og dr. Jón Bragi Bjarnason hefur notað í Pensím-vörur sínar sem einkum hafa verið notaðar til þess að vinna á ýmsum húðmeinum.

Þetta eru mjög hvetjandi niðurstöður sem gefa tilefni til frekari rannsókna, segir í frétt á vef AVS rannsóknasjóðsins, en sjóðurinn starfar á vegum sjávarútvegsráðuneytisins og styrkir verkefni sem stuðla að auknu verðmæti sjávarfangs.

Rannsóknir benda til þess að Pensímlausnir drepi inflúensuveirur af stofni H3N2 (mannaflensa) en ekki frumur manna. Lausnin sem notuð var í þessar tilraunir drepur 70% veirunnar á fimm mínútum, og er þetta sama lausn og notuð er í vöru sem gengur undir merkinu PENZIM Lotion og seld hér á landi.

Að mati verkefnisstjóra eru þetta mjög mikilvægar niðurstöður sem gefa tilefni til frekari rannsókna, t.d. að skoða hvort Pensím hefur áhrif á aðrar veirur, einkum herpes zoster (áblástur) og herpes singles (ristill). Rannsaka þarf frekar með hvaða hætti Pensím hefur áhrif á veirurnar. Hafin er þróun á hálstöflum, nefþvottaúða, hálsúða og munnskoli með Pensími í samstarfi við sænska fyrirtækið Enzymaica AB.

Fyrr á árinu var skýrt frá því að nýleg rannsókn hefði sýnt að ensím unnið úr þorskinnyflum dræpi 99% af fuglaflensuveirum af H5N1-stofni. Rannsóknin var unnin í London, en Ensímtækni sá um vinnslu ensímsblöndunnar sem notuð var við tilraunirnar.

Megin niðurstaða þessa verkefnis er að Pensímlausnirnar drepa fuglaflensuveiruna, en ekki frumur manna. Þá er einnig mjög áhugavert að gera klínískar rannsóknir á varnarmætti Pensíms gagnvart inflúensusýkingum í mönnum og hvernig þróa megi vörur til varnar sýkingu, segir á vef AVS.