föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er makrílstofninn eingöngu evrópskur?

4. september 2012 kl. 10:39

Makríllinn úr N-Atlantshafi lítur ekki allur eins út.

Fjölþjóðlegt rannsóknaverkefni í gangi um stofngerð makríls í Norður-Atlantshafi.

Makríll hefur fundist á íslenskum hafsvæðum í sífellt auknum mæli síðan árið 2006, en breytingar á útbreiðslu hans hafa fylgt breytingum á umhverfisaðstæðum í hafinu, m.a. hlýnun sjávar. Hafin er fjölþjóðleg rannsókn sem miðar að því að afla mikilvægra vísindagagna sem geti varpað frekara ljósi á breytingar á útbreiðslumynstri makríls í Norður- Atlantshafi. 

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar, Matís og Háskóla Íslands ásamt norskum, færeyskum, grænlenskum og kanadískum vísindamönnum hófu rannsóknir á makríl í Norður Atlantshafi síðastliðið ár í samvinnu við nokkur útgerðarfyrirtæki (Huginn ehf, Síldarvinnslan hf, Vinnslustöðin hf og Framherji aps). Styrkur frá Verkefnasjóði sjávarútvegsins undir verkefnisstjórn Matís ýtti verkefninu úr vör árið 2011 með verkefninu "Stofnerfðafræði makríls í Norður Atlantshafi - er stofninn eingöngu evrópskur?" og í kjölfarið árið 2012 fylgdu færeyski rannsóknasjóðurinn (Faroese Research Council) og norræni NORA sjóðurinn með fjármögnun sem nær til desember 2014 undir verkefnisstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar (Dr. Christophe Pampoulie). 

Um er að ræða þverfaglegt verkefni sem byggir á söfnun makrílsýna á mismunandi svæðum og tímabilum og úrvinnslu þeirra með tilliti til DNA arfgerða, líffræðilegra upplýsinga, vinnslueiginleika o.fl. ásamt umhverfisgögnum. Áætlað er að verkefnið "Stock structure of Atlantic Mackerel" sem kallast SAM varpi ljósi á uppruna makríls innan íslenskrar, færeyskrar og norskrar lögsögu. Jafnframt er stefnt á að greina stofngerð makríls í Norður Atlantshafi, þ.e. fjölda stofneininga og hvort blöndun eigi sér stað milli ólíkra stofneininga á veiðislóð, bæði milli hugsanlegra ólíkra stofneininga innan Evrópu sem og milli Evrópu og N-Ameríku. 

Nánar um málið á vef Hafrannsóknastofnunar