föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er von á skerðingu í þorski?

8. júní 2018 kl. 11:12

Sá guli er mikilvægasta nytjategund Íslendinga.

Landssamband smábátaeigenda hefur rýnt í gögn frá síðasta togararalli og virðist sem ekki sé loku fyrir það skotið að aflaheimildir í þorski skerðist - öfugt við það sem vonir voru um.

Á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda er þeirri spurningu velt upp hvort fyrir dyrum sé umtalsverð skerðing á aflaheimildum í þorski.

Hafrannsóknastofnun kynnir aflaráðgjöf sína á miðvikudaginn kemur.

Í frétt Landssambandsins segir að flestir beini sjónum sínum að þorskinum, enda langverðmætasta tegundin sem veidd er hér við land. 

„Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar í júní í fyrra var því spáð að veiðistofn þorsks mundi halda áfram að stækka, færi úr 1.356 þús. tonnum í 1.444 þúsund tonn, upp um 6,4%. Eftir að hafa lesið tilkynningu og skýrslu stofnunarinnar frá 16. apríl má hins vegar búast við að spáin gangi ekki eftir.  Þar er greint frá helstu niðurstöðum úr stofnmælingum botnfiska (rallinu) sem fram fór 26. febrúar - 21. mars.  Um stofnvísitölu þorsks segir eftirfarandi: Stofnvísitala þorsks er 5% lægri en meðaltal áranna 2012-2017, þegar vísitölur voru háar,“ segir í fréttinni og svo þetta: 

„Við að rýna í tölur úr grafi í skýrslu sem fylgir fréttinni, bendir allt til þess að vísitalan nú hafi lækkað um hvorki meira né minna en fimmtung frá mælingum 2017. Lækki veiðistofn jafnmikið og vísitalan bendir til er hætt við að leyfilegur heildarafli minnki um 30 þúsund tonn, eða hámark þess sem má lækka milli ára samkvæmt sveiflujöfnun í aflareglu.  Jafngildir 11%.“