fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Erfðamengi stærsta fisks í heiminum kortlagt

13. september 2016 kl. 09:03

Tunglfiskur.

Tunglfiskur getur orðið 2,7 metrar á lengd og vegið 2,3 tonn

Erfðamengi tunglfisks (ocean sunfish), sem er stærsti beinfiskur heimshafanna, hefur verið skráð í fyrsta sinn í rannsóknum Genabanka Kína í Singapore. Niðurstöður rannsóknanna voru birtar nýlega og hulunni svipt af mörgum sérkennum þessa fisks. Frá þessu er greint á vefnum fis.com.

Heimkynni tunglfisks er í sjónum í hitabeltinu og tempraða beltinu og getur hann orðið 2,7 metrar á lengd og vegið 2,3 tonn. Tunglfiskinn vantar sporð og hefur hann því sérkennilegt, hringlaga form. Fiskurinn lifir aðallega á marglyttum og jafnvel þótt fæða hans hafi lítið næringargildi vex hann óvenjuhratt. Hann getur þyngst um allt að eitt kíló á dag en aðrar tegundir fiska þyngjast gjarnan um 0,02 til 0,5 kíló á dag. Niðurstöður rannsóknarinnar geta varpað ljósi á breytt gen sem ráða því hvað fiskurinn vex hratt og einnig skýrt óvenjulega beinabyggingu hans.

Þess má einnig geta að hrygna tunglfisks getur framleitt allt að 300 milljónir eggja þegar kemur að hrygningu, fleiri egg en nokkurt annað hryggdýr framleiðir.

Sjá einnig meðfylgjandi MYNDBAND