þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Erfitt að eiga við síldina úti af Stykkishólmi

23. október 2008 kl. 11:49

„Það var dálítið af síld að sjá í Kiðeyjarsundinu vestur af Stykkishólmi en svæðið er þröngt og eftir að tveir til þrír bátar eru búnir að kasta er eins og síldin styggist og hrökkvi inn á milli skerja. Svo síast hún út aftur ef hún fær frið,” sagði Sigurbergur Hauksson skipstjóri á Berki NK þegar Fiskifréttir náðu tali af honum í gær, en þá var skipið á leið til Neskaupstaðar til löndunar með 1.000 tonna afla.

Börkur NK kastaði fimm sinnum og fékk afla sinn í þremur köstum, þar af 500 tonn í einu kasti og nokkru minna í hinum tveimur og gaf svo Bjarna Ólafssyni AK afgang sem hann hafði ekki not fyrir.

Sigurbergur sagði að aðstæður á þessum slóðum væru slíkar að ef eitthvað væri að veðri væri ekki unnt að athafna sig þar.

Hann vonaðist til þess að síldin færi að koma sér inn á Grundarfjörðinn þar sem hún mokveiddist í fyrra og hittifyrra, en þar væri skjólsælla.

 Þess má geta að Hoffellið frá Fáskrúðsfirði fékk 500 tonn af síld inni á Grundarfirði í upphafi vikunnar en síðan var þar ekki meira að hafa.