sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Erlend skip lönduðu uppsjávarafla fyrir tæpa 27 milljarða í Noregi

14. desember 2011 kl. 11:27

Öll fyrri met slegin varðandi sölu uppsjávarafla af erlendum skipum

Erlend fiskiskip hafa selt uppsjávarfisk að verðmæti 1,3 milljarðar norskra króna (26,5 milljarðar ISK) í gegnum kerfi norsku síldarsölusamtakanna, Norges Sildesalgslag. Í ár jókst umsetning vegna landaðs afla erlendu skipanna um hálfan milljarð króna og öll fyrri met hafa verið slegin.

Það er einkum sala á makríl sem skýrir þessa miklu aukningu. Í ár voru seld tæp 90 þúsund tonn af makríl fyrir um 1,1 milljarð norskra króna (22,4 milljarða ISK). Um 38 tonn vor seld af norsk-íslenskri síld fyrir um 200 milljónir norskra króna og tæp 4 þúsund tonn af Norðursjávarsíld fyrir tæpar 23 milljónir.

Hér er bæði um að ræða fisk sem seldur er á uppboðum og fisk sem seldur er í beinum viðskiptum í gegnum sölukerfi Norges Sildesalgslag. Breskir bátar lönduðu stærsta hluta makrílsins.

Hráefni af erlendum skipum skapar umtalsverðar tekjur í Noregi. Norges Sildesalgslag fær um 0,65% samlagsgjald sem gefur um 8,5 milljónir norskra króna (170 milljónir ISK). Þessi afli er síðan unninn í Noregi og skapar auknar útflutningstekjur.