sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB getur ekki verið alvara

16. desember 2011 kl. 12:02

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Tómas H. Heiðar samningamaður Íslendinga segir refsiaðgerðir vegna makrílveiða ganga gegn EES-, EFTA- og WTO-samningunum.

Fiskibladet/Fiskaren í Noregi hefur eftir Tómasi H. Heiðar, aðalsamningamanni Íslendinga í makríldeilunni, að honum finnist ekki trúverðugt að ESB íhugi í alvöru að afla sér heimilda til þess að grípa til refsiaðgerða í formi innflutningsbanns á sjávarafurðir frá Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar.

Tómas segir alveg ljóst að slíkar viðskiptalegar refsiaðgerðir stríði gegn EES-samningnum, EFTA-samningnum, ákvæðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og öðrum alþjóðlegum viðskiptasamningum.

Tómas bendir á að nú þegar séu í gildi, bæði í íslenskum og norskum lögum, heimildir til þess að banna löndun á fiski úr stofnum sem ekki hafi verið samið um veiðistjórn á. Íslendingar muni augljóslega ekki setja sig upp á móti því að ESB beiti sams konar aðgerðum gagnvart íslenskum skipum í aðildarríkjum sínum. Staðreyndin sé hins vegar sú að makrílafli Íslendinga hafi síðustu árin allur verið veiddur innan íslenskrar lögsögu, verið landað í íslenskum höfnum og unninn á Íslandi.

Loks er haft eftir Tómasi að samkomulag í makríldeilunni verði að taka mið af þeirri staðreynd að fjórðungur makrílstofnsins eða sem svarar 1,1 milljón tonna, hafi gengið inn í íslenska lögsögu síðustu árin og haldið sig þar í 4-5 mánuði í fæðuleit.