föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB íhugar refsiaðgerðir gegn Færeyjum

1. maí 2013 kl. 12:02

Síld

Ástæðan er einhliða kvótaaukning þeirra í norsk-íslenskri síld.

Margt bendir til þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirbúi nú að grípa til viðskiptaþvingana gegn Færeyingum, ekki vegna makríldeilunnar heldur vegna einhliða ákvörðunar þeirra um að þrefalda hlut sinn í veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Danmarks Fiskeriforening, samtaka danskra útgerðarmanna og fiskimanna. Vísað er til þess að Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hafi viðrað möguleikann á refsiaðgerðum á fundi í Evrópuþinginu nýlega og síðan hafi verið óstaðfestur orðrómur á sveimi um að hafin væri vinna í framkvæmdastjórn ESB við að undirbúa slíkt. 

Á vefnum kemur fram að færeyski sjávarútvegsráðherrann, Jacob Vestergaard, hafi í fréttatilkynningu furðað sig á ummælum Damanaki, ekki síst þeim að Færeyingar hafi gengið frá samningaborðinu um skiptingu síldarinnar. Hann segir að þvert á móti hafi hinar þjóðirnar útilokað Færeyinga, horfið á brott af fundarstaðnum og lokið samningum sín í milli annars staðar. 

Eins og fram kom í Fiskifréttum fyrir skemmstu hefur matvælaráðherra Danmerkur lýst því yfir að engar refsiaðgerðir væru á döfinni af hálfu ESB gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar. Ástæðan vær sú að ESB héldi sig ekki sjálft innan markanna um sjálfbærar makrílveiðar. Öðru máli gilti hins vegar um norsk-íslensku síldina.