fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB kaupir kvóta af Grænlendingum

24. september 2012 kl. 15:30

Frá Grænlandi.

Greiðir jafnvirði 3ja milljarða ísl. króna á ári.

Nýr fiskveiðisamningur Grænlands og Evrópusambandsins var undirritaður í Brussel nýlega og hafa báðir aðilar lýst sig ánægða með hann. 

Samningurinn gildir fyrir árin 2013 -2015 og greiðir ESB 19,3 milljónir evra á ári fyrir fiskveiðiréttindi við Grænland. Það samsvarar tæplega 3,1 milljarði íslenskra króna árlega. Þetta er heldur hærri upphæð en síðasti samningur gerði ráð fyrir. 

Þorskkvótinn sem ESB skip mega veiða við Grænland hækkar úr 2.200 tonnum í 3.500 tonn og úthafskarfakvótinn úr 3.000 tonnum í 8.000 tonn. Gullkarfakvótinn við Austur-Grænland, sem var 2.000 tonn, er alveg sleginn af. Grálúðukvótinn við Vestur-Grænland helst óbreyttur, 2.500 tonn, en grálúðukvótinn við Austur-Grænland eykst um 3.200 tonn og fer í 7.000 tonn. 

Þá mega ESB skip veiða 7.000 tonn af rækju við A-Grænland og 4.000 tonn við V-Grænland sem er svipað og áður. Hins vegar eykst lúðukvótinn við A-Grænland úr 200 tonnum í 1.200 tonn, en helst óbreyttur, 200 tonn, við V-Grænland. 

Loks má nefna að Grænlendingar láta ESB fá 55.000 tonn af loðnukvóta sem er 5.000 tonn aukning. 

Frá þessu er skýrt á vef Grænlandspóstsins.