miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB leggur til um 11% niðurskurð kvóta

28. september 2011 kl. 08:48

Evrópusambandið

Lagt til að veiði úr 53 stofnum verði dregin saman um 10-25% í flestum tilvikum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti nú í vikunni fyrstu tillögur um kvóta í fisktegundum í Atlantshafi og Norðursjó á árinu 2012. Um er að ræða 83 einstaka stofna. Í flestum tilvikum er gert ráð fyrir verulegum niðurskurði á kvótum. Þó er lagt til að kvótar í fáeinum staðbundnum stofnum verði auknir, jafnvel um tugi prósenta og meir, að því er fram kemur á vef IntraFish.

Ef þessar tillögur ESB verða að veruleika mun heildarveiðin í Atlantshafi og Norðursjó dragast saman um 11% milli áranna 2011 og 2012. Lagt er til að kvótar verði skornir niður í 53 stofnum, í flestum tilvikum er niðurskurðurinn 10-25%. En í tveimur staðbundnum stofnum af sólkola er lagt til að kvótinn verði skorin niður um 38% og 45%. Þá er lagt til algert veiðibann í fáeinum þorskstofnum; vestur af Skotlandi, í Írska hafinu og í Kattegat.

Þrátt fyrir tillögur um mikinn almennan niðurskurð er lagt til að kvótinn í 9 fiskstofnum verði aukinn. Lagt er til að veiðar úr litlum staðbundnum þorskstofni sem heldur sig vestur af Írlandi og þar um slóðir verði auknar um 141%. Hér er ekki um mikið magn að ræða, kvótinn eykst úr um 4 þúsund tonnum í 9.700 tonn. Einnig er lagt til að hraustlega verði aukið við kvóta í skötusel sem meðal annars er veiddur vestur af Spáni og Portúgal; kvótinn fari úr 1.570 tonnum í 3.300 tonn og aukningin yrði 110%. Síldarkvótinn suðaustur af Írlandi verður aukinn um 60% gangi tillögur ESB eftir. Á móti kemur að síldarkvótar á öðrum svæðum gætu verið skornir niður um 25%.