mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB: Samkomulag um reglur um refsiaðgerðir

27. júní 2012 kl. 23:07

Makríll

Tilefnið er óleyst makríldeila við Íslendinga og Færeyinga.

Samkomulag hefur náðst milli Evrópuþingsins og Danmerkur sem gegnir nú formennsku innan ESB um reglur sem snúa að aðgerðum gegn ríkjum sem stunda ósjálfbærar fiskveiðar.

Þetta staðfestir breski þingmaðurinn Pat Gallagher á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com. Það leynist engum að tilefni þessara reglna er makríldeila ESB og Noregs annars vegar og Íslendinga og Færeyinga hins vegar. 

Samkvæmt þessum reglum er hægt að takmarka innflutning til ESB á fiski úr fiskistofnum sem nýttir eru sameiginlega og einnig úr tengdum stofnum. Hugtakið tengdir stofnar er sagt túlkað vítt og nái yfir margar tegundir með skírskotun til reglna FAO. 

Í höfnum ESB-ríkja verður unnt að takmarka aðgang skipa sem sigla undir fána ríkis sem talið er stunda ofveiði. Sömuleiðis skipa sem flytja fisk og fiskafurðir úr fiskistofnum sem nýttir eru sameiginlega og úr tengdum stofnum. 

Þá er bannað að selja fiskiskip, veiðibúnað og aðföng til ríkja sem álitin eru stunda ofveiði. Og loks er bannað að flagga út skipum frá ESB-ríkjum til landa eða landsvæða þar sem ofveiði er talin stunduð.