þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB setur þrjú ríki út af sakaramentinu

11. nóvember 2013 kl. 11:31

Sjóræningjaveiðiskip á Reykjaneshrygg ásamt flutningaskipi á þeim árum þegar ólöglegar veiðar voru stundaðar þar. (Mynd: LHG).

Belize, Kambódía og Gínea hafa ekki brugðist við áminningum um ólöglegar veiðar.

María Damanaki sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins boðar aðgerðir gegn þremur ríkjum, Belize, Kambódíu og Gíneu, sem ekkert hafa gert til að mæta alþjóðlegum skuldbindingum sínum um að stemma stigu við ólöglegum veiðum skipa sem skráð eru í þessum löndum. 

Upphaflega voru átta ríki á svörtum lista vegna þessara mála en Damanaki sagði að fimm þeirra hefðu brugðist við með jákvæðum hætti og samið aðgerðaráætlanir. Þau eru Fiji, Togo, Sri Lanka, Panama og Vanuatu. Þá nefndi hún að önnur ríki eins og Indónesía og Seychelles-eyjar hefðu sýnt jákvæða viðleiti í þessu efni. 

Aðgerðir gegn áðurnefndum þremur ríkjum munu felast í því að banna innflutning afurða frá þeim og hafa kerfisbundið eftirlit með því að slíkur innflutningur eigi sér ekki stað. Einnig er ESB ríkjum bannað að veiða í lögsögum þessara ríkja og fiskveiðisamningar við þau verða ekki gerðir.