laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB styrkir til útgerða vegna olíuverðshækkunar

20. júní 2008 kl. 13:02

Þegar sjávarútvegsráðherrar ESB landanna hittast í Luxemborg í næstu viku mun olíuverðskrísan verða helsta umræðuefnið á dagskrá fundarins. Mörg aðildarlönd ESB hafa óskað eftir því að viðbrögð við háu olíuverði og slæm áhrif þess á afkomu fiskveiða verði rædd.

Þetta kemur fram í frétt á vef LÍÚ sem byggð er á upplýsingum frá Danmarks Fiskeriforening. Þar segir ennfremur:

ESB hefur unnið fjölda tillagna um hvernig bregðast megi við ört hækkandi olíuverði og lækka tilkostnað við fiskveiðar í aðildarlöndunum. Meðal tillagna ESB er sá valkostur að hækka núverandi olíustyrki sem eru að hámarki 30 þúsund evrur (3,8 milljónir króna) í 100 þúsund evrur (12,7 milljónir króna) og hefja auk þess neyðaraðstoð með styrkjum nú þegar.

Í tillögum ESB eru hugmyndir um að aðlaga fiskverð upp úr sjó að beinum tilkostnaði við veiðarnar. Þessi tillaga er lögð fram m.a. að hálfu Danmerkur.

Einnig er lögð áhersla á auknar rannsóknir í orkusparandi tækni. Þar fyrir utan er lögð til aukin úrelding fiskiskipa í aðildarlöndum þar sem fjöldi fiskiskipa er of mikill svo draga megi úr tilkostnaði við veiðarnar.

Tillaga frá Suður – Evrópu

Sjávarútvegsráðherrar Ítalíu, Frakklands, Grikklands, Möltu, Portugals og Spánar hafa einnig unnið tillögu til ráðherraráðsins. Þeir leggja til að Evrópski fiskveiðisjóðurinn auki árleg fjármarframlög úr 500 milljónum evra (63,5 milljaðar króna). Tillagan byggir á því að díselolía hafi hækkað um 240 prósent frá 2004 skv. www.euobserver.com."

 Nánari upplýsingar má finna með því að smella hér.