föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB: Veiðar umfram ráðgjöf bannaðar

30. maí 2013 kl. 09:46

Evrópusambandið

Samkomulag innan Evrópusambandsins.

Í fréttum Financal Times (FT) segir að samkomulag hafi orðið innan Evrópusambandsins í morgun (fimmtudag) um að binda endi á fiskveiðar umfram ráðgjöf vísindamanna og byggja fiskistofna upp að nýju. Samkomulagið muni þýða endalok árlegs þras um kvóta á milli ráðherra ESB-ríkja, sem hingað til hafa verið sakaðir um að láta skammtímahagsmuni ráða ferðinni við þær ákvarðanir.

Þetta kemur fram í frétt á vefnum Evrópuvaktinni.

FT hefur eftir embættismönnum í Brussel að þetta samkomulag þýði að hægt verði að auka fiskistofna ESB um 15 milljónir tonna fram til loka þessa áratugar. Í samkomulaginu felist mikill niðurskurður á brottkasti en talið er að fiskimenn innan ESB hendi um tveimur milljónum tonna af fiski í sjóinn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur að um 75% af fiskistofnum ESB séu ofveiddir en til samanburðar er sú tala á heimsvísu sögð vera um 25%.

Í samkomulaginu felst að einstakar fiskveiðiþjóðir innan ESB verði að minnka flota sinn mjög ella missa þau fjárstyrki til flotans. Ríkisstjórnir aðildarríkjanna verða að samþykkja samkomulagið svo og Evrópuþingið.

Helstu fiskveiðiþjóðir ESB eru: Danmörk, Spánn, Bretland og Frakkland en þau afla um helmings alls afla, sem kemur á land innan ESB.