sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB vill draga úr fiskveiðum

21. apríl 2009 kl. 08:52

Draga þarf úr fiskveiðum í Atlantshafi og Norðursjó til þess að fiskveiðar verði sjálfbærar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur til að sjómönnum verði færð meiri ábyrgð á fiskveiðistjórnun í nýrri sameiginlegri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins.

Í skýrslu um ástandið sem kynnt er á morgun segir að 30% af fiskistofnum í lögsögu Evrópusambandslandanna séu í hættu.  Vandinn felist enn í ofveiði, of stórum flota,  miklum niðurgreiðslum, og að veiðar á undirmálsfiski aukist.  80% af öllum fiskistofnum séu undir hámarks framleiðni getu. Af sumum mikilvægum tegundum sé meihluti fisks veiddur áður en hann kemst á hrygningaraldur. 

Í rökstuðningi fyrir frekari verndaraðgerðum segir að sjómenn myndu til lengri tíma litið hagnast á því að takmarka veiðar þar til illa staddir stofnar rétti úr kútnum, en í núverandi kerfi sé skammtímagróði megin drifkrafturinn.  Mörg ríki hafi gerst sek um að viðhalda mikilli veiði í illa förnum stofnum af pólitískum ástæðum.  

Framkvæmdastjórnin telur að þrátt fyrir að bátum hafi verið fækkað þá aukist veiðigetan um 2-3% á ári vegna tækninýjunga, fiskveiðflotinn sé þrisvar sinnum stærri en þurfi til þess að veiða þann fisk sem til skipta er.  Lagt er til að til að allar niðurgreiðslur til fiskveiða verði aflagðar m.a. að greiða niður eldsneyti til fiskiskipa. Fiskveiðieftirlit verði aukið og refsingar auknar fyrir að brjóta lög og reglur um fiskveiðar. 

Þá verði skýr greinarmunur gerður milli réttinda veiðiskipa lítilla samfélaga sem lifi á strandveiðum og verksmiðjuskipa stórra fiskiðjufyrirtækja. Til þess að ná því að gera fiskveiðarnar sjálfbærar þurfi að vinna með sjómönnum og hvetja þá til að beita eigin aðferðum við sjálfbæra fiskveiðistjórnun, sem taki mið af langtímahagsmunum.

RÚV skýrði frá þessu.