föstudagur, 30. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Evoy rafbátur fyrir laxeldið

Gudjon Gudmundsson
4. ágúst 2020 kl. 07:00

Evoy1 hefur verið í prófunum í Noregi.

Hljóðlaus og gengur 50 hnúta

Í Noregi eru um 900 þúsund skemmtibátar, þar af 550 þúsund vélknúnir. Fyrirtækið Evoy ætlar að breyta þessum hlutföllum með rafknúinni aflrás fyrir 20 til 30 feta langa báta, eins og t.a.m. skemmtibáta og ribb-báta en ekki síður hljóðláta og mengunarlausa báta til að flytja starfsfólk út að sjókvíum laxeldisfyrirtækjanna.

Evoy kynnti í fyrra frumgerð báts með slíka aflrás, Evoy1, og hefur fyrirtækið nú fengið samtals 4,4 milljónir evra, um 700 milljónir ISK, í styrk til þróunar bátsins frá Evrópusambandinu.

Evoy1 getur nú gengið hraðast 50 hnúta og er einn hraðskreiðasti rafbátur í heimi. Heimsmetið fyrir rafdrifinn bát er nú 51,3 hnútar sem sett var af bát frá þýska skemmtibátasmiðnum Say Yachts. Envoy stefnir á að slá það met með nýja bátnum áður en hann kemur á almennan markað í haust.

Evoy1 er umhverfismeðvituðum Norðmönnum talsvert hjartans mál og til marks um það er Erna Solberg, forsætisráðherra landsins, guðmóðir bátsins.