þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Evrópuþingið samþykkir reglur um refsiaðgerðir

13. september 2012 kl. 10:11

Evrópusambandið

Ætlaðar sem vopn í makríldeilunni við Íslendinga og Færeyinga.

Evrópuþingið samþykkti í dag nær einróma reglur sem heimila refsiaðgerðir gegn þriðja ríki vegna ofveiði. Evrópuþingmenn segja þær vopn í makríldeilunni við Ísland og Færeyjar. 

659 Evrópuþingmenn greiddu atkvæði með nýju reglunum, 11 greiddu atkvæði gegn þeim, 7 sátu hjá. Þær eru almennar reglur um refsiaðgerðir gegn þriðja ríki ef sambandið telur það veiða of mikið úr sameiginlegum fiskistofnum. Þeim er hægt að beita í makríldeilunni við Ísland og Færeyjar ef framkvæmdastjórn og ráðherraráð ESB taka ákvörðun um það.

Evrópuþingmenn sögðu þetta mikilvægt vopn fyrir sjávarútvegsstjóra ESB í viðræðum í makríldeilunni í næsta mánuði. Þeim ætti að beita ef samningar takist ekki um makrílkvótann.

Frá þessu er skýrt á vef RÚV. Þar er bent á að ekki sé gengið jafn langt í nýju reglunum og sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins vildi í sumar þegar hún samþykkti að þær fælu í sér löndunarbann á allan fisk. Því var breytt í meðferð Evrópuþingsins og ráðherraráðsins. Nú verður bannað að landa þeim stofni sem deilt er um.

Þá verður hægt að banna ríkjum sem deilt er við að sigla skipum til hafnar í ríkjum ESB. Síðan er hægt að grípa til útflutningsbanns á fiskistofninn sem deilt er um og tengda stofna í meðafla.