föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eyborg EA: Veiðir úthafsrækju og frystir um borð

18. september 2009 kl. 15:00

Meiri áhugi hefur verið fyrir úthafrækjuveiðum í ár en oftast áður. Ráðgert er að frystitogarinn Eyborg hefji þessar veiðar innan tíðar og frysti rækjuna um borð, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.

Eyborg EA er nýkomin til landsins en skipið hefur verið í verkefnum erlendis í tæpan áratug, fyrst við veiðar á rækju á Flæmingjagrunni og síðan við veiðar í Miðjarðarhafi og önnur verkefni, var m.a. þjónustuskip við túnfiskveiðar.

Stefnt er að því að Eyborgin fari á veiðar á úthafsrækju á Íslandsmiðum í næsta mánuði og verður rækjan fryst um borð sem iðnaðarrækja. Rækjunni verður landað til frekari vinnslu á Hólmavík.

Eyborg er nú í höfn á Akureyri þar sem hún fer í klössun hjá Slippnum. Ár og dagar eru síðan rækja hefur verið fryst um borð við veiðar hér við land. Birgir Sigurjónsson, útgerðarmaður Eyborgarinnar, sagði í samtali við Fiskifréttir að rekstrarskilyrði hefðu breyst til batnaðar við rækjuveiðar. Einnig skipti máli að heimilað hefði verið að taka meðafla um borð sem yki aflaverðmæti. Því hefði skapast grundvöllur til að hefja þessar veiðar á ný.