miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Eyðir öllum varma og mýkindum loftsins“

Guðsteinn Bjarnason
25. desember 2019 kl. 09:00

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði, Háskóli Íslands

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent á Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, leitar víða fanga í rannsóknum sínum á hafísnum hér við land.

Hafísinn hefur að mestu haldið sig fjarri Íslandsströndum býsna lengi, ólíkt því sem áður var algengt. Ingibjörg Jónsdóttir sér ekki fram á að það breytist á næstu árum, þróunin geti þó enn komið á óvart með ýmsum hætti.

Ingibjörg er dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Hún fylgist grannt með nýjustu gögnum um útbreiðslu hafíss á norðurslóðum, en leitar einnig fanga í gömlum heimildum sem hafa að geyma fróðleiksmola af ýmsu tagi sem nýtast vísindamönnum við kortlagningu sögunnar.

Hún sagði frá þessum rannsóknum í erindi sem hún flutti í haust á vegum Rannsóknaseturs um norðurslóðir.

Aðfluttur að norðan

Hún segir hafísinn sem kemur hingað vera meira eða minna aðfluttan, annað hvort komi hann úr Norður-Íshafinu eða norðan frá Grænlandshafi.

„Þetta er mismikið magn sem kemur úr Norður-Íshafinu og mismikið sem myndast á leiðinni. Auk þess er hann stöðugt að brotna upp og frjósa á milli eftir því hvernig veður og straumar hafa áhrif á hann.“

Það er ekki fyrr en hann er orðinn nánast landfastur hér að hann fer að kæla í kringum sig. Síðan skapast ákveðinn vítahringur þegar hafísinn fer að hverfa því hafið gleypir í sig alla þá geislun sem hafísinn hefði endurvarpað.

Borgarís við Grænland. MYND/Þorgeir Baldursson

Aðstæður til hafísmyndunar

Vísindamenn átta sig býsna vel á því hvernig hafís myndast og við hvaða aðstæður það gerist. Þær aðstæður myndast sjaldan við Ísland en þar kemur til samspil sjávarhita, seltustigs og eðlismassa.

„Lofthiti þarf að vera undir frostmarki sjávar nógu lengi til að kæla alla vökvasúluna,“ segir Ingibjörg. „Hafísmyndun verður því einkum í lagskiptum sjó, þar sem mikið ferskvatn rennur til hafs eða á grunnsævi.“

Þetta gerist til dæmis inni á fjörðum eða norðan Rússlands þar sem ár flytja mikið magn af ferskvatni til sjávar. Bráðnun jökla eykur síðan enn á ferskvatnið og getur valdið því að hafís verði meiri meðan bráðnunin er sem mest.

Sláandi breytingar

Hér voru mikil hafísár frá 1965 og fram yfir 1970, og hafa þau verið rakin til þess hve mikið af ferskvatni barst í hafið á þeim tíma. Áratugina þar á undan var aftur á móti hlýskeið með auðum sjó að mestu.

Breytingarnar á útbreiðslu hafíss á Norðaustur-Atlantshafi má rekja langt aftur í tímann og þar segja gömul hafískort mikla sögu. Danska veðurstofan hefur gefið út harla nákvæm kort allt frá því seint á nítjándu öld.

Ingibjörg dregur fram eitt þessara korta. Það er frá árinu 1917 og þar eru tekin saman gögn fyrir 30 ár og sýnt hver hafði verið hámarks-, meðal- og lágmarksútbreiðsla hafíss á þessu tímabili.

„Það eru rúmlega 100 ár síðan þetta kort kom út og sláandi að sjá hvað taldist vera hefðbundið ástand á þessum tíma. Þetta eru ekkert litlar breytingar.“

Grúsk í skjölum

Víða í gömlum skjölum og frásögnum má finna heimildir um hafís hér við land. Ingibjörg hefur markvisst unnið að því að skoða slíkar heimildir til að átta sig betur á útbreiðslu hafíss á ýmsum tímum. Þar má líka lesa um þau margvíslegu áhrif sem hafísinn hafði á mannlíf og búskap.

„Það er til mikið af dagbókum, sérstaklega eftir 1850, að ég tali nú ekki um eftir 1870, þar sem eru lýsingar á því hvað bændur voru að gera frá degi til dags. Fróðlegt að skoða hvernig hafísinn birtist þar.“

Um miðja 19. öld voru einnig teknar saman sýslu- og sóknalýsingar um land allt. Sendar voru 70 spurningar á alla presta, prófasta og sýslumenn á landinu. Ýmis átthagafélög hafa gefið þessar lýsingar út og Sögufélagið gaf síðan út það sem ekki hafði birst áður.

Þar á meðal var býsna nákvæm spurning um hafís, hvort hann komi þangað, hvernig hann hagi sér og hvaða áhrif hann hefur.

„Bara þessi eina spurning er mjög nákvæm og það er gaman að bera svörin saman,“ segir Ingibjörg.

Skaðvaldur
„Hafísinn var svo mikill skaðvaldur. Hann gat haft svo mikil áhrif á landbúnaðinn. Ef hann var fram á sumar kom kannski bæði kal í túnum og minni grasspretta. Síðan hindrar hann fiskveiðar, veiðarfæri skemmast og fleira slíkt.“

Dæmi um þessar lýsingar má sjá hér neðst á síðunni.

Ingibjörg nefnir að í dagbók bónda nokkurs megi lesa um það að æðarfuglar væru farnir að krókna í vökum þegar hafísinn var kominn.

„Þessi dagbókarritari er í öngum sínum yfir nágranna sínum sem er að fara út á ísinn að drepa æðarfugl. Sá er eflaust bara að hugsa um að stytta þeim kvölina, en þessi sér fyrir sér að þarna séu þær að baksast við að halda vökinni opinni og reyna að lifa af.“

Bölið gleymist

Við grúsk sitt í gömlum skjölum segist hún stundum leiða hugann að því að breytingar í náttúrunni verði einhvern veginn sjálfsagðar með tímanum.

„Mér finnst það stundum pínulítið sérstakt að sjá allar þessar áhyggjur sem fólk hefur núna. Hafís var svo mikið böl hér áður fyrr og fólk hefði verið guðslifandi fegið að vera lust við hann. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að fólk hefði bara sagt: Því fyrr því betra.“

Hún segir þetta minna svolítið á umræðuna sunnanlands í sumar. Menn voru svo hæstánægðir með sumarið en samt með miklar áhyggjur af hlýnun.

„Allar svona hraðar breytingar eru svolítið uggvænlegar af því það tekur kerfið tíma að jafna sig.“

Pólitíkin í hafísrannsóknum

Ingibjörg segir alls konar pólitík eiga það til að blandast inn í hafírsrannsóknir og nefnir að í kringum 1920 hafi risið deilur milli Dana og Norðmanna um tilkall til Grænlands.

„Norðmönnum fannst það skrambi hart að Danir fengju yfirráðin. Þeir voru búnir
að stunda veiðar þarna lengi, bæði úti fyrir og einnig á landi. Í kringum 1900 var ákveðið á alþjóðlegum fundi að allir ættu að senda Dönum allar hafísupplýsingar og Norðmenn gerðu það alveg svikalaust, en síðan fannst þeim eins og Danir væru að nota þessi gögn til að sýna fram á að þeir ættu tilkall til Grænlands.“

Á skjalasafni í Noregi fann Ingibjörg bréfasamskipti milli Norðmanna þar sem þeir voru að ræða þetta.

„Þeim fannst Danir vera að hafa sig að fíflum. Þeir sendi þeim öll gögnin og svo er þetta notað gegn þeim. En næst þegar ég fór til Danmerkur í skjalasöfnin þar þá athugaði ég hvort öll gögnin sem ég fann í Noregi hefðu skilað sér til Danmerkur, og það vantaði ekki snifsi. Þannig að þótt þeim fyndist þetta hart þá létu þeir það ekki bitna á öryggi sjófarenda eða vísindunum, sem er mjög flott.“

Gögnin frá Norðmönnum hafa síðan reynst afar mikilvæg.

„Norðmenn stunduðu mikið selveiðar, hvalveiðar og fleira hérna á norðurslóðum.
Það sem er merkilegt við selveiðar að þær voru stundaðar þegar ísinn var í hámarki á vorin, og frá þeim koma mjög góð gögn því þeir voru í rauninni að fylgja ísjaðrinum.“

Hverju sem viðrar, þegar ís er fyrir landi, er þá ætíð hráslagameira og kuldinn ónotalegri en í sama veðri að öðru leyti endranær.

Síra Jón Eyjólfsson, Staðarsókn í Aðalvík
--

Hafís kemur hér þrásinnis og fylgir honum gjarnast stórhreta- og umhleypingasöm veðrátta, svo að á sama sólarhring ganga ýmist stór köföld með grimmu frosti eða ofsaleg bleytuslög, sem eyðir öllum varma og mýkindum loftsins, gerir jörðina hrjóstuga og þyrkingslega, orsakar mönnum og skepnum margskonar óheilnæmis og bannar oft bjargræði af landi og sjó.

Síra Bjarni Gíslason, Lýsing Sanda- og Hraunssókna í Dýrafirði
--

Oftast er hann lengi að skrölta með endilöngum Ströndunum, djúpt eða grunnt, og linnir þá aldrei á meðan umhleypingum af öllum áttum og áhlaupum, með smáblotum af suðri og vestri og þokukaföldum og ísingu af austnorðri, en þó oftast útnorðri á víxl, hvað við annað, þó gengur mest af norðanáttinni.

Dæmi úr dagbókarfærslum frá 19. öld:

En þegar hann er orðinn landfastur, koma ætíð stillingar og stundum svo sem þriggja daga blotar, en aldrei stöðugar hlákur, og ætíð er brimlítið þegar hann er í nánd.

  • Síra Jón Eyjólfsson, Staðarsókn í Aðalvík

Stundum kemur hann svo skyndilega, að þó ekkert sjáist til hans að kvöldi af hæstu fjöllum, þá eru fullar af honum allar víkur að morgni, og með jafnmiklum hraða hverfur hann aftur frá þurru landi á stundum, og það er oftar.

  • Síra Jón Eyjólfsson, Staðarsókn í Aðalvík

En oftast fer hann úr augsýn nokkru eftir miðjan vetur eða á góu, hafi hann komið um, eða skömmu eftir miðjan vetur, og því segja menn: Sjaldan er mein af miðsvetrarís.

  • Síra Jón Eyjólfsson, Staðarsókn í Aðalvík

Stundum hafa menn séð viðarrastir brenna í hafi, og rekur þá oft mikið af brenndum og sviðnum viði. Það kenna menn því, að viðurinn núist svo ákaflega saman í ísnum, að í honum kvikni.

  • Síra Jón Eyjólfsson, Staðarsókn í Aðalvík