föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eystrasaltið fullt af vopnum

14. nóvember 2012 kl. 16:01

Flóinn við Kiel.

Sprengjur að tærast og hættulegt eitur streymir út, eins og sinnepsgas og fosfór

Í Eystrasaltinu leynist hættulegt vopnarusl og ógrynni af sprengjum sem eru að tærast, að því er fram kemur í frétt á vef danska ríkissjónvarpsins. Megnið af þessum vopnum er frá seinni heimstyrjöldinni.

Þar segir að ryðið hafi smám saman eytt ytra byrði á sprengjum þannig að hættulegt sinnepsgas, fosfór og TNT streymi út og blandist sjónum.

Þýsk rannsóknastofnun hefur metið umfang vopnaruslsins og þess vanda sem það skapar í flóanum við borgina Kiel. Niðurstöðurnar eru sláandi að sögn danskra haflíffræðinga.

Þeir segja að sjórinn sé ótrúlega mikið eitraður og þeir viti ekki hversu mikið tjón þetta valdi dýrum og mönnum vegna þess að málið hafi aldrei verið almennilega rannsakað.

Af og til reka gulir fosfórkekkir á land á Eystrasaltsströndina í Þýskalandi sem valda hættu. Ferðamenn gætu villst á þeim og rafi sem einnig rekur á land. Þeir eigi á hættu að brenna sig taki þeir klumpana upp. Fosfór er sjálfbrennandi við 30 gráðu hita.