föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eystrasaltsþorskur aftur í náðinni hjá McDonald?s

8. september 2009 kl. 12:00

McDonald’s skyndibitakeðjan hefur ákveðið að nota á ný þorsk úr Eystrasalti í þorskborgara sína en því hætti hún fyrir þremur árum þegar stofninn var talinn að hruni kominn og nýting hans ekki á sjálfbærum nótum.

Í kjölfar þess að vísindamenn hafa nú tilkynnt að stofninn sé í örum vexti og hafa talið óhætt að leyfa 15% aukningu á veiðum á næsta ári, hefur McDonald’s sannfærst um að nýtingin á Eystrasaltsþorskinum standist allar kröfur um sjálfbærni og því sé ekki lengur ástæða til þess að hafa hann í banni, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum IntraFish.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) birti í júní síðastliðnum veiðiráðgjöf sína þess efnis að óhætt væri að auka veiðikvótann fyrir eystri þorskstofninum í Eystrasalti úr 49.380 tonnum á þessu ári í 56.800 á því næsta eða um 15%. Framkvæmdastjórn ESB mun taka ákvörðun um málið nú í september. ICES lagði einnig til að kvótinn fyrir vestari stofninn í hafinu yrði aukinn í 17.700 tonn eða um tæp 9%.

McDonald’s keðjan tók upp sína eigin stefnu í umhverfismálum fyrir fimm árum og segist vilja með henni stuðla að bættri umgengni um auðlindirnar.