föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fá nöfnin Brúarfoss og Dettifoss

Guðjón Guðmundsson
25. febrúar 2019 kl. 11:30

Skipin afhent næsta haust samkvæmt áætlun

Eimskipafélag Íslands hf. er með tvö gámaskip í smíðum í Kína. Nýju skipin eru 2150 gámaeiningar að stærð, 180 metra löng og 31 metra breið og verða ríkulega útbúin stjórnbúnaði og mun umhverfisvænni en eldri skip félagsins. Gert er ráð fyrir að skipin verði afhent næsta haust og eru liður í endurnýjun skipaflotans sem og fyrirhuguðu samstarfi við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line.

Ákveðið hefur verið að skipin hljóti nöfnin  Brúarfoss og Dettifoss.

Fimmta skip félagsins frá upphafi var nefnt Brúarfoss og kom það á eftir Gullfossi, Goðafossi, Lagarfossi og Goðafossi (II). Brúarfoss (I) var fyrsta frystiskip Eimskips, smíðað í Kaupmannahöfn árið 1927 og var í þjónustu félagsins allt til ársins 1957. Nýi Brúarfoss verður sjötta skip Eimskips með þessu nafni.

Dettifoss er einnig sjötta skip félagsins með því nafni, en fyrsta skipið var smíðað fyrir Eimskip í Frederikshavn árið 1930 og var í þjónustu félagsins allt til ársins 1945.

Með afhendingu nýrra skipa stefnir félagið á að selja skipin Goðafoss og Dettifoss sem eru 1457 gámaeiningar að stærð og hafa verið í rekstri Eimskips undanfarin 20 ár. Núverandi Dettifoss mun fá nafnið Laxfoss síðar á þessu ári.