þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færa Landhelgisgæsluna fyrr inn í nútímann

7. júlí 2019 kl. 08:40

Vélin lenti í Reykjavík í gærkvöldi. Mynd/Landhelgisgæslan

Önnur leiguþyrla Landhelgisgæslunnar komin til landsins.

TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, er komin til landsins en hún lenti í fyrsta sinn á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi. Þyrlan er önnur tveggja leiguþyrla sem Landhelgisgæslan tekur í notkun af gerðinni Airbus H225.

Þetta kemur fram á Facebook síðu Landhelgisgæslunnar. Þar segir:

„Vélarnar færa Landhelgisgæsluna fyrr inn í nútímann en ráðgert var en þær eru nútímalegri, stærri, langdrægari, hraðfleygari og öflugri en þær þyrlur sem Landhelgisgæslan hefur notað undanfarin ár. Hin leiguþyrlan, TF-EIR, kom til landsins í mars og fór í sitt fyrsta útkall fyrir tæpum mánuði. TF-GRO verður formlega tekin í notkun síðar í mánuðinum. TF-EIR og TF-GRO leysa leiguþyrlurnar Gná og Syn af hólmi en þær hafa verið í þjónustu Landhelgisgæslunnar undanfarin ár.“

Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri, Andri Jóhannesson, flugmaður, og Jón Erlendsson, yfirflugvirki, skipuðu áhöfn vélarinnar frá Noregi. Að sögn Sigurðar Heiðars gekk flugið yfir hafið vel en vélinni var flogið frá Noregi til Hjaltlandseyja. Þaðan var farið til Færeyja og þvínæst til Reykjavíkur með millilendingu á Höfn í Hornafirði.

Flugfloti Landhelgisgæslunnar samanstendur nú af þyrlunum TF-LIF, TF-EIR og TF-GRO auk flugvélarinnar Sifjar.