fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færa sig nær mörkuðum og viðskiptavinum

6. júní 2019 kl. 14:21

F.v.: Nuno Araújo framkvæmdastjóri Grupeixe, Jose Maria Cachide, fyrrum eigandi og framkvæmdastjóri Grupeixe og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. AÐSEND MYND

Vinnslustöðin kaupir saltfiskvinnslufyrirtækið Grupeixe í Portúgal.

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefur keypt portúgalska saltfiskframleiðandann og dreifingar- og sölufyrirtækið Grupeixe. Gengið var frá kaupunum í síðustu viku og hefur Vinnslustöðin tekið við rekstrinum.

Grupeixe veltir um 1,8 milljarði króna á ári og seldi um 2.300 tonn af afurðum árið 2017. Starfsmenn eru um 30 talsins. Nuno Araújo, sem áður var sölustjóri VSV Portúgal, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Grupeixe.

„Þetta er markaður sem skiptir Íslendinga miklu máli og var frá fornu fari stærsti markaður okkar fyrir þorsk þótt hann hafi dregist saman undanfarin ár. Portúgalir vilja frá okkur vertíðarþorsk sem verkaður er í salti í að minnsta kosti sex mánuði og síðan þurrkaður. Grupeixe hefur líka keypt mikið af frystum fiski frá Rússlandi og Noregi og einnig blautverkaðan saltfisk frá Íslandi og Noregi. Frysta fiskinn fletja þeir, salta og þurrka,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Fyrsta útlenda fyrirtækið

Hann segir að ætlunin sé að kynna sér starfsemina og markaðinn áður en farið verði að huga að einhverjum breytingum. Vinnslustöðin á nú Grupeixe alfarið en auk þess á fyrirtækið hlut í Okada Suizan í Japan, sem hefur nær 50% markaðshlutdeild loðnuafurða þar í landi, og sölufyrirtæki víða um heim. Þau eru á Íslandi, Þýskalandi, Portúgal, Hollandi, Frakklandi og Rússlandi.  Þau hétu áður About Fish en nú hefur nöfnun þeirra verið breytt í VSV ásamt nafni hvers lands.

„Við erum fyrsta útlenda fyrirtækið sem eignast að fullu saltfiskvinnslu í Portúgal og gerumst þar með beinir þátttakendur í rótgrónum atvinnurekstri með tilheyrandi hefðum og sögu. Kaupin á Grupeixe eru í samræmi við þá stefnu Vinnslustöðvarinnar að færa sig nær mörkuðum og viðskiptavinum erlendis,“ segir Sigurgeir.

Hann segir að með kaupunum verði Vinnslustöðin skuldbundnari Portúgal sem markaði. Fyrirtækið hafi keypt af öðrum saltfisk og það breytist ekki við breytt eignarhald. Fylgt verður fordæmi Okada Suizan sem kaupir loðnuafurðir af fleiri íslenskum uppsjávarfyrirtækjum en Vinnslustöðinni.