mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyingar áforma hækkun á veiðigjöldum fyrir makríl

9. maí 2014 kl. 09:00

Lagt til að gjaldið fari í eina krónu á kíló sem samsvarar 20 íslenskum krónum

Áformað er að hækka veiðigjöld fyrir makríl og norsk-íslenska síld í Færeyjum, að því er fram kemur í frétt á vef færeyska sjónvarpsins.

Færeyska sjávarútvegsráðuneytið leggur til að veiðigjald fyrir makríl hækki um 25 aura, fari úr 75 aurum á kíló í eina krónu (um 20 ISK). Gjaldið fyrir norsk-íslensku síldina hækki úr 35 aurum í 50 aura fyrir kílóið.

Löndunargjaldið á hins vegar að vera óbreytt, tvær krónur á kíló þegar landað er erlendis eða til vinnsluskipa á sjó. Færeysk skip borga þó eina krónu á kílóið.

Sjávarútvegsráðuneytið mun senda Fiskvinnuráðinu (ráðgefandi nefnd hagsmunaaðila) tillögurnar til umsagnar og verða þær teknar fyrir á fundi ráðsins síðar í mánuðinum.