fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyingar sigla með kolmunnann til Ísland

9. apríl 2014 kl. 14:50

Löndun hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. (Mynd: Óðinn Magnason)

Löng löndunarbið hjá Havsbrún í Færeyjum knýr þá til þess.

Færeysk kolmunnaveiðiskip afla svo vel um þessar mundir að löndunarbið hefur myndast hjá fiskimjölsverksmiðjunni Havsbrún í Fuglafirði í Fæeyjum . Nokkur skip hafa því brugðið á það ráð að sigla með aflann til Íslands til löndunar í stað þess að bíða sólarhringum saman heima við.

Þetta kemur fram á vef færeyska útvarpsins í viðtali við Tórheðin Jensen hjá Varðanum í Götu. Hann segir að verksmiðjurnar sem Varðin skipti við á Íslandi séu í Vestmannaeyjum og á Fáskrúðsfirði. 

Havsbrún er eina fiskimjölsverksmiðjan í Færeyjum sem tekur á móti uppsjávarfiski til bræðslu. Fram kemur að það taki um það bil einn sólarhring að landa úr einu stóru skipi í Fuglafirði og á meðan þurfi hin að bíða eða leita annað.

Færeysk skip hafa aðgang að lögsögu ESB og hafa verið að kolmunnaveiðum þar. Íslensku kolmunnaskipin bíða hins vegar í Færeyjum eftir að kolmunninn gangi inn í færeyska lögsögu þar sem þau hafa aðgengi að honum, eins og fram hefur komið í fréttum.