þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyskur togari tekinn fyrir brottkast

20. febrúar 2015 kl. 13:01

Norskir strandgæslumenn fara um borð í Ennibergið. (Mynd: Norska strandgæslan)

Norska strandgæslan vísaði Ennibergi til hafnar í N-Noregi í gær.

Færeyski flakafrystitogarinn Enniberg fékk í gær fyrirskipun frá norsku strandgæslunni um að halda til hafnar í Hammerfest í Norður-Noregi vegna gruns um að hafa fleygt fiski fyrir borð. 

Flogið var yfir togarann síðastliðinn þriðjudag og í gær fóru norskir strandgæslumenn um borð í skipið á miðunum úti af Finnmörku. 

Sonni Johannesen skipstjóri segist gáttaður á þessari uppákomu og fullyrðir að eingöngu hafi verið kastað út hausum og slógi. Lögreglustjórinn í Hammerfest segir hins vegar í samtali við færeyska útvarpið að myndirnar sem teknar voru yfir skipinu úr lofti séu næg sönnunargögn til þess að sekta skipstjórann og gera kröfu um upptöku afla. Um sé að ræða karfa og svo ufsa eða þorsk. Bannað sé með öllu samkvæmt norskum lögum að kasta fiski í sjóinn.