þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Falskur fiskur

12. september 2016 kl. 09:38

Fengrani (catfish) er ódýr eldistegund sem gjarnan er seld sem þorskur.

20% af fiskafurðum í heiminum eru ranglega merkt samkvæmt rannsókn Oceana

Eitt af hverjum fimm sýnishornum af sjávarafurðum sem rannsökuð voru á heimsvísu reyndust vera allt annað en fram kom á matseðli eða á umbúðum, að því er segir í frétt á vefnum fishupdate.com.

Nýlega sendu samtökin Oceana frá sér skýrslu um víðtækar rannsóknir á merkingum sjávarafurða, hvort fólk sé í raun að kaupa þann fisk sem sagður er vera í boði eða eitthvað annað og lakara. Tekin voru 25 þúsund sýni úr sjávarafurðum frá meira en 50 löndum. Í ljós kom að 20% af sýnunum reyndust ekki vera rétt merkt.

Vörusvikin voru misjöfn eftir löndum og fisktegundum. Á Ítalíu voru til dæmis 82% af þeim 200 sýnum sem tekin voru af aborra, fisktegundinni „grouper“ og sverðfiski ranglega merkt.

Fram kemur í skýrslunni að stærsti „svikahrappurinn“ í hópi fiskanna sé asíski eldisfiskurinn „catfish“ sem hlotið hefur nafnið fengrani á íslensku. Hér er um hvítfisk að ræða sem auðveldlega er hægt að selja sem þorsk.