sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fáum þann hrefnukvóta sem við þurfum

2. apríl 2008 kl. 10:21

Hrefnuveiðar í atvinnuskyni verða stundaðar hérlendis í sumar og telja hrefnuveiðimenn sig hafa vilyrði ráðherra fyrir því að fá að veiða þann fjölda dýra sem þörf sé á til að fullnægja innanlandsmarkaði.

Hreinar atvinnuveiðar á hrefnu hefjast á ný í sumar eftir margra ára hlé, en veiðarnar í fyrrasumar voru fyrst og fremst vísindaveiðar og aðeins nokkur dýr voru veidd samkvæmt atvinnukvóta. Þá veiddust samtals 45 hrefnur og seldist allt kjötið.

,,Við höfum átt viðræður við sjávarútvegsráðherra og höfum vilyrði hans fyrir því að fá að veiða þann fjölda dýra sem markaður er fyrir innanlands. Kjötið seldist allt strax í fyrra. Ég veit ekki hversu stór kvótinn verður í upphafi en hann verður aukinn eftir þörfum. Við vonumst til að geta selt  kjöt af 50-70 hrefnum í ár, jafnvel meira,” sagði Konráð Eggertsson formaður Félags hrefnuveiðimanna í samtali við Viðskiptablaðið í dag.