mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Feðraorlof fiskifræðings veldur uppnámi

12. maí 2014 kl. 10:28

Rannsóknaskipið G.O. Sars tekur þátt í síldarleiðangrinum af hálfu Norðmanna.

Norskir sjómenn gagnrýna að helsti síldarsérfræðingurinn sé ekki með í mikilvægum leiðangri.

Það hefur valdið nokkru fjaðrafoki innan síldarútvegsins í Noregi, að helsti síldarsérfræðingur landsins, Erling Kåre Stenevik, skuli hafa kosið að vera í feðraorlofi meðan stofnmæling ársins á norsk-íslensku síldinni stendur yfir í ár. 

Frá þessu er skýrt í Fiskeribladet/Fiskaren í dag. Ástæðan fyrir óánægjunni er sú að í vetur hafa  norskir síldarsjómenn gagnrýnt harðlega mat fiskifræðinga á síldarstofninum. Þeir telja að margfalt meira af síld hafi verið á miðunum í vetur en mælingar vísindamanna hafi gefið tilefni til og þar af leiðandi sé matið rangt og veiðikvótar of litlir. 

Sérfræðingar norsku hafrannsóknastofnunarinnar hafa staðið fast við mat sitt á stofninum og hefur Stenevik verið þar fremstur í flokki. Stofnmat þeirra er 4,12 milljónir tonna. Kvótinn var skertur um 30% milli áranna 2013 og 2014 og varað hefur verið við frekari skerðingu á næsta ári. 

Upplýsingafulltrúi norsku hafrannsóknastofnunarinnar furðar sig á umræðunni um feðraorlof vísindamannsins og segir hana út úr öllu korti. Sama gerir leiðarahöfundur Fiskeribladet/Fiskaren. 

Síldarleiðangurinn umræddi er þegar hafinn og auk Norðmanna taka rannsóknaskip frá Íslandi, Færeyjum, Rússlandi og Evrópusambandið þátt.