sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Feðgar dæmdir fyrir að lögskrá ekki bát

27. maí 2008 kl. 20:43

Feðgar sem báðir eru skipstjórar voru á dögunum dæmdir til greiðslu fésektar í héraðsdómi Vestfjarða. Faðirinn var dæmdur fyrir að hafa lagt skipi úr höfn, alls 15 sinnum, frá Sauðárkróki án þess að sjá til þess að áhöfn skipsins, alls fimm menn, væri lögskráð um borð og án þess að þrír áhafnarmeðlimir væru með lögboðna slysatryggingu. Einnig var hann dæmdur sekur um að hafa haldið úr höfn í umrædd skipti á skipinu vanmönnuðu, þar sem ekki voru um borð stýrimaður og vélavörður með gild atvinnuréttindi.

Sonurinn var fundinn sekur um sömu brot. Faðirinn var dæmdur til greiðslu sektar, kr. 220.000, en sonurinn dæmdur til að greiða helmingi lægri sekt, 110.000 kr. Skýrast misþungar refsingar af því að sonurinn hafði ekki áður verið fundinn sekur um refsivert athæfi.