þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fékk 190 túnfiska í nótina

21. september 2016 kl. 09:00

Metafla af túnfiski landað.

Önnur eins mokveiði í einu kasti hefur ekki sést síðan árið 1978.

Norski báturinn Hillersøy lenti heldur betur í mokveiði á túnfiski nú á dögunum í tilraunaveiðum. Báturinn fékk á einni nóttu ekki færri en 190 stóra túnfiska í nótina í einu kasti vestur af norsku eyjunni Ona. Frá þessu er greint á vefnum FiskerForum.

Hér er um metveiði að ræða að því best er vitað. Hingað til hefur norskt skip fengið mest 117 túnfiska í nótina í einu kasti en það var árið 1978.

Haft er eftir norska fiskifræðingnum Leif Nøttestad hjá norsku Hafrannsóknastofnuninni í Bergen að margir hefðu trúað því að bláuggatúnfiskur hefði yfirgefið norsku lögsöguna fyrir fullt og allt en þarna hefði annað komið í ljós.

Stofn bláuggatúnfisks í Austur-Atlantshafi hefur verið í mjög bágu ástandi í mörg undanfarin ár en er nú aðeins að rétta úr kútnum. Leif Nøttestad segir að mikilvægt hafi verið að fá þennan afla í tilraunaveiðunum til að viðhalda veiðireynslu Norðmanna og tryggja þannig að þeir fái kvóta í framtíðinni.

Ekki liggur ljóst fyrir um verðmæti túnfiskanna sem Hillersøy veiddi en í „Fjarðarpóstinum“ norska segir að aflaverðmætið hafi verið um 4 milljónir norskra króna (um 56 milljónir ISK).

Kvóti Norðmann í bláuggatúnfiski árið 2016 er 43,7 tonn. Þar af eru 11,7 tonn tekin frá fyrir meðafla. Nokkrir bátar sóttu um leyfi til að veiða túnfiskinn í ár og var nótabáturinn Hillersøy dreginn út. Báturinn fékk allan kvótann í sinn hlut, eða 32 tonn.