föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fékk risahákarl á sjóstöng

1. október 2013 kl. 16:14

Hákarlinn mældur

Veiðimaðurinn skellti sér í sjóinn, mældi hákarlinn og sleppti honum síðan

Norðmaður fékk risahákarl á sjóstöng og vó hann tæpt tonn. Þegar veiðimaðurinn sá fram á að hann réð ekki við skepnuna hringdi hann í ferðaþjónustufyrirtækið sem hann vinnur hjá og fékk hjálp þaðan. Frá þessu er sagt í frétt á vef norska sjónvarpsins.

Norðmaðurinn, Vilhelm Skilhagen, var einn á hákarlsveiðunum og varð lítið var lengi dags. Hákarlinn beit á rétt áður en veiðimaðurinn ætlaði að halda til hafnar. Það tók hann og vinnufélaga hans um 40 mínútur að koma böndum á fiskinn.

Vilhelm Skilhagen skellti sér þá í sjóinn með málband í hönd og mældi fiskinn. Reyndist hann vera 4,20 metrar á lengd og 2,60 metrar í ummál. Samkvæmt viðurkenndum mælireglum telst hákarlinn hafa vegið 982,4 kíló og er talinn vera annar stærsti hákarl sem veiðst hefur á stöng.

Hákarlinum var síðan sleppt enda segist Vilhelm Skilhagen sleppa öllum hákörlum sem hann veiðir á stöngina.