þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fengu 120 tonn í þremur holum

Guðjón Guðmundsson
28. febrúar 2021 kl. 13:00

Sigurður VE á útleið í bræluskít. Mynd/Óskar P. Friðriksson.

Áhöfnin á Sigurði VE reyndi fyrir sér á spærlingsveiði í byrjun árs. Um var að ræða tilraunaveiðar í samráði og með leyfi Hafrannsóknastofnunar. Eftirtekjan var um 120 tonn af hreinum spærlingi. Óvíst er hvort framhald verði á veiðunum.

Hörður Guðmundsson, skipstjóri á Sigurði, segir að miðað við lóðningar fyrir áramót hafi menn jafnvel átt von á meiri veiði.

„Aflinn var rýr en veiðarnar gengu mjög vel. Tilraunin sem slík gekk vel og við fengum engan meðafla né seiði. Það vantaði bara upp á að aflinn væri meiri. Spærlingurinn var bara ekki á þeim stöðum þar sem við máttum veiða,“ segir Hörður.

Leyfið til veiðanna takmarkaðist við þrjú svæði við Eldeyjarbanka, Jökuldýpi og Kolluál. Þeir sem höfðu verið á síldveiðum á þessum svæðum fyrir áramót höfðu orðið varir við miklar lóðningar og því þótti mönnum vert að prófa þetta.

„Við fengum einhver 120-130 tonn af spærling sem er náttúrulega ekki mikið og það var ekkert lóð miðað við það sem hafði verið fyrir áramót. Spærlingurinn hefur verið farinn eitthvert annað. Pælingin var að vinna aflann til manneldis en svo kom í ljós að það fengist ekki nógu hátt verð fyrir hann svo allt fór til bræðslu. En þetta er fínasti fiskur og var veiddur í talsverðum mæli hér áður fyrr.“

Hörður segir að þegar spærlingur var veiddur í Háfadýpi áður fyrr og fyrir sunnan Eyjar hafi jafnan komið heilmikið af seiðum með, til að mynda lönguseiðum. Sú hafi ekki verið raunin núna. Fiskur hafi verið skilinn frá spærlingnum með skilju og aflinn hafi verið hreinn spærlingur. Það var rúntað um miðin á tveimur sólarhringum og leitað lóða. Aflinn fékkst svo í þremur stuttum holum.

Ákjósanlegt á „dauða tímanum“

„Það er ekki fýsilegt að halda þessu áfram ef það fæst ekki meira lóð. Þetta þyrfti að vera eins og það var fyrir áramót en þá var talsverð síld í þessu líka. En núna var síldarkvótinn búinn og við komum ekkert nálægt þeim svæðum þar sem síldin var. En það væri ákjósanlegt ef spærlingurinn gæfi sig á þessum dauðu tímabilum uppsjávarskipanna,“ segir Hörður.

Veiðarnar fóru fram í góðu samstarfi við Hafró og eftirlitsmaður frá Fiskistofu var um borð. Spærlingurinn var tekinn í lítið troll með loðnubelg og loðnupoka. Svo var notuð sama fiskiskilja og notuð hafði verið við kolmunnaveiðar við Færeyjar.

„Meðan við erum ekki fá nein seiði eða annan fisk þá sé ég ekkert mæla gegn því að gefið verði leyfi fyrir veiðar á spærling. Menn voru að fá helling af honum með síldinni bara með stórriðna poka.“