laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fer bæði í kýrnar og á skipin

Guðsteinn Bjarnason
5. september 2018 kl. 07:00

Repjuakur í blóma á búi Skinneyjar-Þinganess í Flatey á Mýrum. MYND/AÐSEND

Repjuakur í blóma á búi Skinneyjar-Þinganess í Flatey á Mýrum. Gert er ráð fyrir að sex tonn af olíu fáist úr uppskerunni ásamt bæði fóðurmjöli og áburði á túnin.

„Þetta er náttúrlega fyrsta árið. Við þurfum að fá betri reynslu á þetta og ná betri tökum á þessu,“ segir Hjalti Þór Vignisson, framkvæmdastjóri sölu og þróunar hjá Skinney-Þinganes. „En repjuakurinn lítur vel út núna eftir mjög vont vor og það verður gaman að sjá hvernig spilast úr með haustinu.“

Hornfirska útgerðarfélagið Skinney-Þinganes hóf í vor repjurækt á jörðinni Flatey í Mýrum, þar sem fyrirtækið rekur eitt stærsta fjós landsins.

Repjuræktin snertir sjávarútvegsþáttinn í starfsemi fyrirtækisins ekki síður en landbúnaðarþáttinn, því úr repjunni stendur til að gera olíu sem nota má til að knýja skip útgerðarinnar.

Þetta er tilraunaverkefni, liður í því að koma á orkuskiptum í íslenska fiskiskipaflotanum, unnið í samstarfi við Jón Bernódusson á Samgöngustofu og verkfræðistofuna Mannvit. Ræktuninni stýrir Birgir Freyr Ragnarsson, bústjóri í Flatey, en Jón leiðir þróunarhlutann. Markmiðið er að auka verulega hluta endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldsneytis.

Tökum þetta í skrefum
„Jón er náttúrlega búinn að vinna að þessu lengi. Við erum bara rétt að hoppa upp á vagninn þegar hann er að fara á fulla ferð,“ segir Hjalti Þór. „En við tökum þetta bara í skrefum. Næst er að þreskja og sjá hver uppskeran verður. Við þurfum að þurrka kornið og pressa olíuna úr. Síðan leikum við okkur eitthvað með olíuna. Jón kom hingað í fyrra með olíu og setti á eitt skip hjá okkur, þannig að það er búið að prófa þetta.“

Jón hefur stundað rannsóknir á repju síðan 2008, meðal annars með tilraunarækt á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Samgöngustofa hefur sent frá sér nokkrar skýrslur um repjurannsóknirnar, nú síðast í vor þar sem fram kom að hér á landi sé nægilegt landrými til að rækta repju í því magni að olían dygði til að knýja allan fiskiskipaflota landsins.

Að sögn Jóns er gert ráð fyrir að uppskeran í Flatey gefi af sér sex tonn af olíu, tólf tonn af fóðurmjöli og 18 tonn af stönglum. Olían fari á skip útgerðarfyrirtækisins, repjumjölið sé ætlað gripunum til fóðurs og stönglarnir fari fyrst undir gripina en síðan sé þeim dreift á landið sem áburði.

„Sparnaður við innkaup af fóðurmjöli greiðir upp kostnaðinn af ræktuninni,“ segir Jón. „Allt annað, til dæmis olían, er hreinn virðisauki.“