þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fer betur með áhöfn og afla

Guðsteinn Bjarnason
19. júlí 2019 kl. 07:00

Ný Vestmannaey VE kemur til hafnar. MYND/GA

Ný Vestmannaey kom til heimahafnar á miðvikudaginn eftir fimm daga siglingu frá Noregi.

„Við fyrstu sýn reynist þetta skip mjög vel,“ segir Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, þegar Fiskifréttir náðu tali af honum á miðvikudagsmorgun stuttu áður en skipið sigldi inn í Vestmannaeyjahöfn. „Þetta er hljóðlátur og þýður dallur.“

Birgir Þór og áhöfn hans voru þá komin langleiðina til Eyja eftir fimm daga siglingu frá Noregi. Skipið var afhent útgerðarfélaginu Bergi-Hugin, dótturfélagi Síldarvinnslunnar, á föstudaginn og heimsiglingin hófst á laugardag.

„Það var blíða megnið af tímanum þannig að það er ekkert farið að reyna á hann, fyrir utan smá kalda sem við fengum,“ segir Birgir Þór.

Tilhlökkunarefni
Hann segir það tilhlökkunarefni að hefja störf á nýja skipinu, en það verði reyndar ekki fyrr en í september sem skipið fer á veiðar.

„Við eigum eftir að setja millidekk á hann,“ en það verður gert hjá Slippnum Akureyri.

Hann segir skipið töluvert breiðara en forverinn og nýbreytni sé að hafa tvær skrúfur sem gott er að vinna með.

„Svo er miklu stærra millidekk og allur aðbúnaður miklu betri. Það er líka geypilega mikill tæknibúnaður í þessu skipi.“

Jákvætt og spennandi
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir sömuleiðis að sér lítist vel á nýja skipið. „Þetta er bara þannig skip. Það er svo margt jákvætt og spennandi við þetta og við vonum að þetta fari betur með áhöfn og meðhöndlun afla.“

Vestmannaeyin er annað skipið af tveimur sem Síldarvinnslan er að fá nýsmíðuð til landsins. Von er á nýrri Bergey til landsins í haust og þá er áformað að haldin verði formleg móttökuathöfn fyrir nýju skipin tvö, Vestmannaey og Bergey.

Bæði skipin eru smíðuð hjá skipasmíðastöðinni VARD í Noregi og er skipasmíðastöðin með fimm önnur skip fyrir Íslendinga í smíðum.

Gunnþór segir samskiptin við skipasmíðastöðina Vard í Aukra í Noregi hafa öll verið með ágætum.

„En þetta er eins og allt annað, aðalspenningurinn er eftir. Það er ekki nema hálft verk unnið að fá skipið heim."

Nýr Börkur verður síðan þriðja nýsmíði fyrirtækisins og kemur til landsins á næsta ári.

Gunnþór segir þó að þar með verði endurnýjun skipaflotans ekki lokið.

„Nei, menn hætta því aldrei. Í útgerð eru menn stöðugt að þreifa fyrir sér varðandi skipakostinn og skoða nýja möguleika."