laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fer á bolfisk- og sæbjúgnaveiðar

Guðjón Guðmundsson
31. mars 2020 kl. 09:15

Tindur, áður Helgi SH, á leið til Flateyrar á dögunum eftir endurbætur í Njarðvík. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Aurora Seafood ehf. kaupir Helga SH af G. Run

Útgerðarfélagið Aurora Seafood ehf. hefur keypt togskipið Helga SH af Guðmundi Runólfssyni hf. á Grundarfirði. Skipið, sem nú heitir Tindur, verður skráð á Flateyri og verður gert út á sæbjúgnaveiðar og bolfiskveiðar úr byggðakvótasamning í samstarfsverkefni á Flateyri.

Stjórn Byggðastofnunar hefur ákveðið að úthluta sérstöku aflamarki til Vestfisk Flateyri ehf sem stofnað hefur verið af Fiskvinnslunni Íslandssögu ehf., Klofning ehf., Aurora Seafood ehf og Atlantic Eagle ehf., utan um sérstakan byggðakvóta til sex ára. Um er að ræða 400 þorskígildi hvert fiskveiðiár.

Meðfram bolfiskveiðum mun skipið stunda sæbjúgnaveiðar. Davíð Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Aurora Seafood, segir hug í mönnum hvað varðar verkefnið. „Auðvitað erum við að reyna að fara nýjar leiðir í þessum efnum, en félagið verður vel fjármagnað með góð verkefni og það ríkir skilningur á því að það tekur tíma.“

Ólympískar sæbjúgnaveiðar

Aurora hefur verið einn stærsti framleiðandi sæbjúgna á landinu undanfarin ár. Á yfirstandandi fiskveiðiári dró útgerðin að landi nálægt þriðjungi alls sæbjúgnaaflans sem var í heildina 3.200 tonn. Fyrirtækið fékk á árinu 2017 1,7  milljóna evra styrk úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins til þess að þróa og tæknivæða veiðar og vinnslu á sæbjúgum.

„Það gekk hratt fyrir sig að veiða kvótann í haust. Skipum hefur fjölgað og þau sífellt betur útbúin til þessara veiða á sama tíma og kvótinn á þekktum svæðum stendur í stað. Við höfum haldið veiðimagninu uppi með markvissri leit að nýjum svæðum en þær veiðar hafa nú verið bannaðar. Hægt er að fá mjög takmörkuð tilraunaleyfi sem er ný tegund fiskveiðistjórnunar og hefur reynst afar illa. Það ríkir því talsverð óvissa um framtíð þessara veiða ef sama fyrirkomulag verður áfram, það er að segja ólympískar veiðar frá september þar til yfir lýkur. Í ljósi nýrrar stöðu á Kínamörkuðum erum við í hörmulegri stöðu að þurfa að fara í kappveiði í haust ofan í frosna markaði,“ segir Davíð Freyr.

Ákall hefur verið til stjórnvalda frá þeim sem stunda veiðar á sæbjúgum og öðrum jaðartegundum að þessum veiðum verði komið fyrir innan ríkjandi fiskveiðistjórnunarkerfis og undir þeim reglum sem þar gilda. Erfitt er að sjá á hvaða grundvelli veiðunum er stýrt núna þegar takmarkaðar ólympískar veiðar fara fram á þessari takmörkuðu auðlind.

Óvissa á mörkuðum

Davíð Freyr segir að óbreyttu fyrirkomulagi við þessar veiðar fylgi neikvæðar afleiðingar. Í fyrsta lagi séu fleiri skip við þessar veiðar en þyrfti. Alþekkt sé að ólympískar veiðar hafi neikvæðar afleiðingar og af þeirri ástæðu sé veiðum almennt stýrt. Mikið álag verði á veiðisvæðunum yfir stuttan tíma. Allir eru í kappi við hvern annan að ná því ákveðna magni sem er í boði og skipin eru því farin að róa allan sólahringinn og af meiri hörku en áður hefur þekkst.

Átta skip voru á sæbjúgnaveiðum þegar þær stóðu yfir en þeim lauk í febrúar síðastliðnum. Aurora á fyrir skipin Klett ÍS og Drang, sem hét Tindur áður en Helgi SH fékk það nafn. Skipin eru sérstaklega útbúin til veiða á sæbjúgum. Megnið af sæbjúgunum eru fryst og seld til Kína. Davíð Freyr segir að ekki líti vel út með þessa afurð frekar en aðrar í ljósi heimsfaraldursins. Kínverjar séu reyndar að rétta úr kútnum hraðar en margir áttu von á en síðasti faraldur, SARS, hafði neikvæð áhrif á sæbjúgnamarkaðinn.

„Á móti kemur að litið er á sæbjúgun sem heilsuvöru og hún talin geta styrkt ónæmiskerfið og aukið þrótt líkamans til þess að berjast á móti hvers kyns kvillum. En það bendir engu að síður allt til þess að efnahagskerfi heimsins sé að taka á sig mikinn hnykk sem gerir það að verkum að neysla á sjávarafurðum getur dregst tímabundið saman.“

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 26. mars