miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fer vel með mannskapinn

Guðjón Guðmundsson
25. október 2019 kl. 15:00

Áskell er fjórða skipið úr raðsmíðaverkefni fjögurra útgerða sem kemur til landsins. Tvö þeirra - Áskell og Vörður - eru í eigu Gjögurs hf. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Nýr Áskell EA kominn frá Noregi

Áskell EA, nýtt togskip útgerðarfélagsins og fiskvinnslunnar Gjögurs á Grenivík, kom til hafnar í Grindavík í byrjun vikunnar eftir nákvæmlega fjóra sólarhringa siglingu frá Brattavogi í Noregi. Reynir Garðar Gestsson skipstjóri segir heimstímið hafa gengið vel og skipið fari vel með mannskapinn.

Þegar Fiskifréttir náðu tali af Reyni Gest var hann í brúnni á leið til Hafnarfjarðar þar sem settur verður í hann vinnslubúnaður.

„Það er mikill munur á þessu skipi og því eldra. Það er mun hærra og breiðara og lætur öðruvísi í sjó. Við fórum sex út að sækja skipið og siglingin heim gekk bara mjög vel. Við fengum reyndar norðaustanskæling í byrjun og suðaustan rok síðasta sólarhringinn, rúmlega 20 metra á sekúndu og talsverða öldu. Skipið stóð þetta vel af sér og það virkar vel á okkur sem gott sjóskip,“ segir Reynir Gestur.

Ekki mikill gangur en mikið tog

Hann segir að meðalgangurinn hafi ekki verið mikill. Hann giskar á að hann hafi verið um 8,5 míla. Sennilega sé þetta líka eittvert stillingaratriði.

„Þetta er ekki mikill hraðbátur en eftir því sem mér skilst frá þeim á Vestmannaeynni þá er togkrafturinn mikill og það skiptir mestu máli. Aðalatriðið er líka stærra og betur útbúið vinnsludekk enda snýst þetta allt um að koma með ferskan fisk og fyrsta flokks vöru að landi. Það snýst allt um meiri gæði í sjávarútvegi í dag.“

Tólf verða í áhöfn Áskels og líklega tveir til þrír í landi sem leysa af, eins og var á eldri Áskel. Reynir Garðar segir eldri Áskel líka hafa farið vel með mannskapinn. Menn voru ánægðir með hann og það sé viss söknuður af honum. Reynir Gestur hefur starfað hjá Gjögri í um 30 ár og tók við eldri Áskel EA þegar hann kom til landsins 2012.

„Vinnsludekkið verður allt öðru vísi. Í brúnni er svo nýjasta tækni á öllum sviðum og það tekur tíma að setja sig inn í það allt saman. Sumt af þessu er ný tækni eins og CQ tækið. Þetta er mjög þægilegt tæki sem líkist einna helst iPad. Í því framkvæmi ég nánast allar aðgerðir.“

Stóri munurinn vinnsludekkið

Stóri munurinn á nýjum Áskel og eldra skipi er aðstaðan á dekki sem miðar öll að því að bæta meðferðina á fiski auk þess sem aðbúnaður áhafnar breytist stórlega. Þá er nýja skipið með tveimur vélum og tveimur skrúfum og verður sparneytnara en það eldra.

Ráðgert er að það taki um einn mánuð að setja vinnslubúnaðinn í skipið í Hafnarfirði. Fiskurinn verður blóðgaður og fullkældur á vinnsludekki. Hann verður flokkaður eftir tegundum og þorskurinn einnig eftir stærð. Flokkunarvél sem byggir á hugbúnaði frá Völku sér um flokkunina. Micro smíðar vinnslubúnað úr ryðfríu stáli. Hönnunin og búnaðurinn miðar að því að áhöfn þurfi aldrei að lyfta þyngdum. Búnaðurinn léttir áhöfninni því verulega störfin. Lestin tekur lítið meira en lest eldra skipsins en munurinn er sá að nákvæmlega einn skammtur í fiskikar kemur niður í lest hverju sinni af réttri tegund og stærð.

„Við höfum verið að sækja þorsk fyrir vinnsluna á Grenivík og reynt að taka aukategundir með en það var ekki mikið pláss fyrir það í eldri Áskel. En nú verður það hægt. Vinnslan hefur tekið þorskinn frá okkur og aukategundirnar hafa farið á markað. Við höfum verið mest úti fyrir Vesturlandi en ef það hefur verið dautt þar höfum við farið austur.“