miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ferðagleði fiskifræðingsins

Guðsteinn Bjarnason
24. desember 2019 kl. 09:00

Að öllum líkindum er það Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur sem sjá má hér við rannsóknarstörf um borð í togaranum Baldri ER 146 á ljósmynd sem Magnús Ólafsson tók þar um borð árið 1912. MYND/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Eðli sínu samkvæmt fylgja fiskifræðinni töluvert af ferðalögum, bæði á sjó og landi. Frumkvöðullinn Bjarni Sæmundsson skrifaði bók um ferðalög sín, allt frá því hann tók að ferðast um Reykjanesið sem barn og unglingur.

Bjarni Sæmundsson fæddist í Grindavík árið 1867 og hélt ungur til náms í Kaupmannahöfn þar sem hann lagði stund á náttúrufræði og landafræði. Að námi loknu árið 1894 óskaði hann strax eftir árlegum styrk frá Alþingi, sem nota skyldi til fiskrannsókna. Hann fór fram á 1.000 krónur en Alþingi úthlutaði honum 800 krónum fyrsta árið, 1895.

Bjarni birti jafnan skýrslur um rannsóknir sínar ár hvert, lengi vel í tímaritinu Andvara. Sú fyrsta birtist árið 1897 og greindi hann þar frá fiskirannsóknum sínum árið 1896.

Fyrstu rannsóknir

„1895 veitti alþingi mjer 800 kr. styrk fyrir hvort ár af næsta fjárhagstímabili, til þess að kynna mjer ástand fiskiveiða vorra í sjó og vötnum og gjöra þær athuganir, er að fiskifræði lúta, sem föng yrðu á,“ skrifar Bjarni í Andvara, og lýsir jafnframt áformum sínum fyrir næstu árin.

„Það var áform mitt, að nota þetta fje til þess að fara að sumrinu skoðunarferðir um sem mestan hluta landsins, þar sem veiði er stunduð í vötnum eða sjó, til þess að fá sem fyrst yfirlit yfir ástand veiðanna á ýmsum stöðum, og jafnframt til þess að safna því helzta, sem menn af reynslunni vita um fiskigöngur og fiskilíf og hvernig fiskiveiðar hafa verið í núlifandi manna minnum.“

Þetta fyrsta ár gerði hann nokkuð víðreist um Suðurlandið, Kjósina og Reykjanesskagann, kynnti sér lax- og silungsveiðar ásamt því að spyrjast fyrir um fiskveiðar í sjó.

Hann tekur fram að þessi rannsóknarferð hans hafi verið „hin fyrsta tilraun af hálfu Íslendinga sjálfra til þess að kynna sjer ýtarlegar fiskilíf og fiskiveiðar landsins. Jeg hefi lært mikið af þessari ferð, og geti jeg farið um öll þau svæði landsins, þar sem veiðar eru stundaðar að mun, vona jeg, að með timanum geti það fengið nokkra þýðingu fyrir fiskiveiðar vorar.“

Næstu árin ferðaðist hann um fleiri landshluta, einn af öðrum, ræddi þar við sjómenn og fékk að skoða aflann, en það var ekki fyrr en árið 1903 sem hann fékk tækifæri til að fylgjast með veiðum og stunda skipulagðar fiskirannsóknir á sjó.

Það ár kom danska rannsóknarskipið Thor hingað til lands og fékk hann að vera með, leiðangursmönnum til aðstoðar og til að gera eigin rannsóknir. Hann hélt þeim rannsóknum áfram í þrjá áratugi og birti jafnan ítarlegar skýrslur um rannsóknir sínar.

Brautryðjendastarf

Jóhann Sigurjónsson, þáverandi forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, sagði í viðtali við Fiskifréttir árið 2014 að Bjarni hafi verið afburðamaður og unnið brautryðjendastarf á mörgum sviðum. Hann hafi tekið sér ýmislegt fyrir hendur innan fræðanna sem ennþá stenst tímans tönn.

„Hann merkti fiska við Ísland og skoðaði göngur þeirra. Hann vann brauðryðjendastörf í athugunum sínum á vexti fiska. Hann aldursákvarðaði margar tegundir af nytjafiskum og þannig gat hann skoðað vaxtarhraða þeirra. Þetta eru allt saman hlutir sem við búum að ennþá í dag, en margt hefur auðvitað breyst í náttúrunni og aðferðafræðin að mörgu leyti önnur.“

Jóhann benti einnig á að Bjarni hafi verið gríðarlega afkastamikill. Þegar hann kom heim frá námi fór hann strax í fulla kennslu í Lærða skólanum en meðfram því skrifaði hann fjölmargar greinar og bækur auk þess að stunda rannsóknir. Í samantekt Árna Friðrikssonar fiskifræðings kemur fram að Bjarni hafi skrifað 88 greinar um margvísleg efni sem snúa að sjávarlífi og rannsóknum.

Töluvert af þeim greinum voru skrifaðar á erlendum tungumálum og birt í erlendum vísindatímaritum.

Ferðasögur á bók

Árið 1942, tveimur árum eftir andlát Bjarna, gaf Víkingsútgáfan út handrit sem hann skildi eftir sig undir heitinu Um láð og lög, og undirfyrirsögnin var Ferðapistlar frá ýmsum tímum.

Þar er að finna frásagnir af ferðalögum hans, allt frá því að hann tók að ferðast um Reykjanesið sem barn og frásögur frá námsárunum, auk þess sem þarna eru birtir pistlar frá rannsóknarferðum hans, meðal annars með danska hafrannsóknarskipinu Thor og á togaranum Skallagrími.

„Dr. Bjarna Sæmundssyni lét vel að skrifa ferðasögur. Honum er víðast létt um stíl, og hann er alls staðar glöggskyggn á allt markvert, sem fyrir ber,“ segir í ritdómi um bókina sem birtist í Helgafelli árið 1943.

Árni Friðriksson, sem var ásamt Bjarna helsti brautryðjandi fiskifræðinnar hér á landi, ritar formála að bókinni og segir þar meðal annars að í skrifum Bjarna leyni sér ekki „hið hlýja þel höfundarins til sjómannastéttarinnar og brennandi áhuginn fyrir málefnum hennar.“

Fyrsta sjóferðin

Bjarni greinir í bók þessari frá fyrstu sjóferð sinni, sem farin var þegar hann sigldi kornungur með föður sínum og vinnumanni sem voru að flytja bát á milli vara, ferð sem Bjarni segir að hafi ekki átt að taka nema örfáar mínútur.

„Sjórinn var eins og spegill,“ skrifar Bjarni, enda dýpið ekki nema hálfur til heill faðmur. „Sást allur botninn greinilega og jafnvel ýmsar sjávarkindur innan um þarann, og þótti mér mikið til koma að sjá þarna nýjan heim, sem mönnum er þvi miður of mikið hulinn, þar sem henn hefur svo margt merkilegt að geyma, og skemmti mér prýðilega, en það stóð ekki lengi.“

Lengra var siglt þegar hann fékk að fara fimm ára „með ýsulóð út á fimmtugt dýpi, og skötulóð áttu þeir nokuð dýpra.“

Skrítnast þótti honum á þeirri ferð „að sjá þangklær og annað rekald, sem varð á leið okkar, fara með all-miklum hraða um spegilsléttan sjóinn á móti okkur.“

Marhnúturinn ljúffengur

Bjarni kom víða við á ferðum sínum og segir meðal annars frá því þegar hann stundaði rannsóknir í og við Ísafjarðardjúp árið 1908. Á ferðum sinum um þær slóðir kom hann meðal annars til Arngerðareyrar og segir frá því að einn daginn hafi þar verið sjaldséðir réttir á borðum: „Það voru marhnútur, marþvari, kampalampi og hörpudiskur. Alt saman bezti matur, sem synd er að nota ekki meira en gjört er. Sérstaklega er marhnúturinn ljúffengur fiskur og er ilt að vita, að hleypidómar og hræðsla við hið ófríða útlit fisksins skuli aftra mönnum frá því að eta hann.“

Árið 1917 kom Bjarni meðal annars til Eyrarbakka og Stokkseyrar og lýsir vangaveltum manna þar um að koma þar upp höfn fyrir „stóra mótorbáta, örugga á öllum tímum árs og aðgengilega, þegar útsjór er fær fyrir þess konar skip.“

Hann gisti í tíu daga á Eyrarbakka og nefnir að þar hafi „snillingurinn Samúel Eggertsson“ verið sambýlismaður hans, „og var sambúð okkar hin bezta. Við áttum líka vel saman, vorum báðir nokkurs konar mælingamenn: Hann gekk út á hverjum morgni með voðalangt mæliband og mældi hús og lóðir á Bakkanum fyrir Brunabótafélagið, en ég gekk út með stutt mæliband og mældi þorsk, ýsu og lýsu (þegar ég náði í það) fyrir vísindin.“

Nýjasta tækni

Síðustu rannsóknarferð sína fór Bjarni með botnvörpungnum Skallagrími RE árið 1932.

Í bók sinni greinir hann frá því að hann hafi eitt sinn staðið einn við stýrishúsgluggann á Skallagrími í þessari síðustu ferð sinni og velt fyrir sér þeim miklu breytingum á skipabúnaði og siglingatækni sem þá höfðu orðið á nokkrum áratugum.

Komin séu alls kyns „nýtízku tæki til þess að rata um sjóinn og forðast hætturnar.“ Þar nefnir hann bergmálsdýptarmæli, áttavita af fínustu gerð, fullkomna loftskeytastöð og fleira.

„Þegar svo við það bætist, að nú er kominn viti á hvert nes svo að segja og fleiri tæki til leiðbeiningar, eins og hljóðdufl, þá mundu nú gömlu seglskipa-skipstjórarnir segja, að með öllum þessum tækjum væri ekki mikil „kúnst“ að rata um sjóinn móti því, sem áður var, og er það hverju orðið sannara.