laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimm ára fjárfesting 132 milljarðar króna

10. mars 2020 kl. 13:43

Ísfisktogarinn Breki bættist í flota Vinnslustöðvarinnar á síðasta ári. MYND/ÓP

Fjárfesting í fiskveiðum um 72 milljarðar króna og í fiskvinnslu um 61 milljarður.

Nýjar tölur Hagstofunnar um fjármunamyndun í sjávarútvegi, bæði bráðabirgðatölur ársins 2019 og endurskoðaðar eldri tölur, sýna að nettó fjárfesting í sjávarútvegi á síðustu fimm árum var um 132 milljarðar króna. Þar af var nettó fjárfesting í fiskveiðum um 72 milljarðar króna og í fiskvinnslu um 61 milljarður.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vekja athygli á þessum tölum um fjárfestingu. Þar kemur fram að fjárfesting í sjávarútvegi á þessu fimm ára tímabili er sú mesta frá því að lög um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 tóku gildi. Það á bæði við um fjárfestingu í fiskveiðum og fiskvinnslu. Kemur það heim og saman við hversu örar tækniframfarir hafa verið í greininni.

Mikil og nauðsynleg endurnýjun hefur orðið á fiskiskipaflotanum, sem er kominn nokkuð til ára sinna. Auk þess hafa tækniframfarir í fiskvinnslu, með aukinni sjálfvirknivæðingu, verið örar sem hefur gert hana mun fjármagnsfrekari en áður, segir þar og ennfremur sé það ljóst að „tækniframfarir, sem hafa verið örar í greininni undanfarin ár, skapa þrýsting á auknar fjárfestingar. Þær eru nauðsynlegar til þess að tryggja samkeppnishæfni og stöðu íslensks sjávarútvegs á kröfuhörðum alþjóðlegum markaði.“