þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimm bílförmum af saltfiski stolið

30. október 2010 kl. 13:29

Fimm bílfarmar af þurrkuðum saltfiski, sem flytja átti frá Noregi til Portúgals, hafa horfið sporlaust á leiðinni á áfangastað. Verðmæti fisksins er um 100 milljónir íslenskra króna. Talið er að skipulögð glæpasamtök standi þar að baki.

Fjórum förmum var stolið í síðasta mánuði og þeim fimmta nú í þessari viku. Alls var um 100 tonn að ræða. Fiskurinn var frá fyrirtækinu Fjordlaks í Álasundi í Noregi.

Danskt flutningafyrirtæki sá um að flytja fiskinn frá framleiðendum til Óslóar en þar átti annað flutningafyrirtæki að taka við honum og flytja á áfangastað í Portúgal. Síðarnefnda fyrirtækið, sem skrásett er í Litháen, hélt á brott með fiskinn og hann hefur ekki sést síðan. Ekki hefur heldur verið unnt að ná sambandi við forráðamenn litháíska fyrirtækisins en eftirgrennslan hefur leitt í ljós að þessir aðilar sýsla með bílaþvott og dekkjasölu. Slóð eins bílanna hefur verið rakin til Lettlands en enginn veit hvað orðið hefur af fiskinum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem norskir fiskframleiðendur verða fyrir því að fiskinum þeirra sé stolið í flutningum. Fyrir nokkrum árum var mörgum bílum með norskum fiski rænt á Ítalíu.

Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi skýrir frá þessu.