sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fimm kvótahæstu útgerðirnar með 31% aflaheimildanna

28. ágúst 2008 kl. 11:00

Kvótaúthlutun í upphafi nýs fiskveiðiárs

Fiskistofa hefur úthlutað aflaheimildum fyrir nýtt fiskveiðiár sem hefst næstkomandi mánudag, 1. september.

HB Grandi hf. er nú sem fyrr langstærsti kvótahafinn. Fyrirtækinu er úthlutað tæplega 22.700 tonnum mælt í þorskígildum, sem er 8,97% af heildaraflaheimildunum.

Í öðru sæti er Brim hf. með rétt um 16.000 þorskígildistonn eða 6,33% af heild, og í þriðja sæti er Samherji hf. með liðlega 15.000 þorskígildistonn sem er 5,95% af heildarkvótanum.

Fjórði í röðinni er Þorbjörn hf. og fimmti er Vísir hf. Þessar fimm kvótahæstu útgerðir eru handhafar 31% heildaraflaheimildanna í þorskígildum talið.

Tíu stærstu kvótahafarnir hafa yfir helmingi kvótans að ráða, tuttugu stærstu útgerðirnar eru með 66% veiðiheimildanna og þrjátíu stærstu með 75% kvótans.

Skipum og bátum á veiðum á Íslandsmiðum fer smátt og smátt fækkandi frá ári til árs samfara samþjöppun aflaheimilda.

Alls er 709 skipum og bátum úthlutað aflaheimildum í upphafi nýs fiskveiðiárs samanborið við 767 skip á sama tíma í fyrra. Fækkunin milli ára nemur 58 fleytum, stórum og smáum.

Nánar er fjallað um kvótaúthlutunina í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.